148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:48]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það eru auðvitað mörg sjónarmið í þessu. Eitt sem ég hef velt fyrir mér. Nú erum við svo heppin að útlendingum og fólki af erlendu bergi brotið hefur fjölgað gríðarlega mikið á Íslandi. Við bjóðum það velkomið og erum sem betur fer hætt að skipa því að skipta um nöfn þegar það flytur hingað. Eitt sem getur gerst er að það verði til svona einhvers konar herraþjóð. Það erum við Íslendingarnir sem erum undir mannanafnalögunum og virðum allar þessar hefðir. Þá er alveg augljóst hver er Íslendingur og hver ekki. Þetta er eitt atriði sem ég held að sé mjög vert að velta fyrir sér, hvort við eigum að segja: Við erum herraþjóðin í þessu landi, við eigum okkar hefð, við höldum í hana, við erum Íslendingar, þið eruð bara útlendingar á Íslandi. Viljum við merkja fólk svona?

Síðan er nú svo margt skemmtilegt í tilverunni. Ég heiti Jón Steindór Valdimarsson. Ég nota eiginlega aldrei föðurnafnið mitt, ekki vegna þess að ég hafi neitt við föður minn að athuga, það er bara miklu þjálla að kalla mig Jón Steindór. Það einkennir mig miklu meira en fullt nafn. Þegar ég var yngri og var skírður í höfuðið á afa mínum sem hét Jón Steindór lagði hann blátt bann við því að ég yrði kallaður Jónki eða Jónsi því að þá væri ég ekki nafni hans. Það varð að kalla mig Nonna. Síðan er ég kallaður Nonni Vald meðal gamalla vina minna. Ég fletti því upp: Er Vald leyft? Já, það er leyft sem millinafn en það er bara fyrir mjög stuttu síðan. Þannig að ég gæti hugsanlega skipt um nafn og orðið Nonni Vald aftur.