148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:50]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held einmitt varðandi hefðirnar og útlendinga sem koma hér til Íslands að stundum smitast hefðir á milli, stundum ekki. Fjölskyldur blandast frá ólíkum menningarheimum og það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Mjög margir, sérstaklega ef hefðirnar eru góðar og fólk ánægt með þær eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á, munu halda í hefðirnar, þær munu ekkert breytast þótt svona lög um nefnd sem fer sérstaklega yfir einhver ákveðin nöfn falli niður. Þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af því og tel það til bóta.

Við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að við erum skírð í höfuðið á fólki, ég er skírð í höfuðið á ömmu minni og hv. þingmaður afa sínum. Í mínu tilviki var það hins vegar svo að ég skyldi fá nafnið Arna svo ég yrði ekki alnafna.