148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég er eiginlega ekki að koma upp í andsvar, ég verð að viðurkenna það, en ég bara verð að nota tækifærið úr því að hv. þingmaður fór að ræða það að við værum orðin svo mörg hér og ræddi um alnafna og annað slíkt að ég bara stóðst ekki mátið og ætla að gera það sem ég gleymdi í minni framsögu hér áðan og lesa upp eina kostulega grein úr núgildandi lögum, nota bene í IX. kafla undir ýmis ákvæði. Þetta er 24. gr., með leyfi forseta:

„Geti maður fært sönnur að því að annar maður noti nafn hans eða nafn sem líkist því svo mjög að villu geti valdið getur hann krafist þess í dómsmáli að hinn sé skyldaður til að láta af notkun nafnsins.“

Er eitthvað sem betur færir sönnur á að hér þurfum við að breyta málum?