148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[10:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Spurningarnar eru þessar: Mun ríkið afsala sér forkaupsrétti að hlutabréfum í Arion banka eins og kröfuhafar, eins og vogunarsjóðir, fara fram á? Mun ríkið selja vogunarsjóðunum þau 13% sem það á í bankanum beint eins og þessir aðilar fara líka fram á?

Þetta eru einfaldar spurningar en erfiðlega hefur gengið að fá svör við þeim frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem virðast sumir hverjir ekki alveg vera með á nótunum í þessum málum. En ég geri ráð fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hljóti að vera það og spyr hann því:

Mun ríkið afsala sér forkaupsrétti í samræmi við kröfur vogunarsjóða í tengslum við skráningu hlutabréfa í Arion banka á markað? Mun það selja sjóðunum þau 13% sem ríkið á í bankanum beint?

Ríkisstjórnin hefur sett saman hóp sem á að fara að skrifa hvítbók með spekúlasjónum um fjármálakerfið og svo eigum við að ræða þá bók hér eftir einhverja mánuði. Eftir það ætlar ríkisstjórnin að reyna að móta sér stefnu í málefnum fjármálakerfisins, líklega umtalaðasta máli síðustu tíu ára á Íslandi. En ríkisstjórnin er ekki einu sinni byrjuð að undirbúa að móta sér stefnu. Á meðan vindur atburðarásinni hratt fram og fyrir vikið mun ríkisstjórnin líklega komast að því, áður en langt um líður, að það var heilmikið til í því sem haft var eftir John Lennon, að lífið er það sem gerist meðan menn eru uppteknir við að gera önnur plön.

Ég ætla að ítreka spurningarnar tvær. Í þriðja skipti:

Mun ríkið afsala sér forkaupsrétti að hlutabréfum í Arion banka í samræmi við kröfur vogunarsjóða? Mun ríkið selja þeim þau 13% sem það á í bankanum beint í samræmi við kröfur sömu aðila?