148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[10:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég sé að ég verð líklega að hætta að spyrja ráðherra þessara spurninga vegna þess að þeir nota hvert tækifæri sem gefst til að spila frá sér stöðu, til að spila frá sér hagsmunum landsins og kalla svo, eftir að þeir eru búnir að klúðra hlutum, á embættismenn til þess að láta útskýra fyrir sér hvers vegna ekkert sé hægt að gera.

Ef við hefðum haft þá nálgun á þeim tíma, eins og hæstv. ráðherra man vonandi, á árunum 2013–2016 hefði ekkert gerst því að það var alltaf hægt að fá menn til að útskýra fyrir okkur að ekkert væri hægt að gera. Hér liggur það fyrir, herra forseti, að þessir aðilar eru að fara fram á það af ríkinu að það afsali sér forkaupsrétti fyrir fram og samt koma hér ráðherrar og segja: Það er nú ekkert víst að ríkið eigi forkaupsrétt. Hvers vegna í ósköpunum er þá verið að fara fram á það af ríkinu að það taki ákvörðun um að afsala sér þessum rétti?

Er ekki mikilvægt, á þessum tímapunkti, herra forseti, að við birtum öll gögn sem varða þetta mál? Er hæstv. fjármálaráðherra til í að beita sér fyrir því með mér að öll gögn sem varða þessi stöðugleikaskilyrði verði birt?