148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er svo sannarlega talsmaður þess að sem mest af þessum gögnum sé birt þannig að hv. þingmaður sé ekki að fiska í gruggugu vatni eins og hann hefur verið að gera undanfarna mánuði, t.d. þegar hv. þingmaður hélt því beinlínis fram að íslenska ríkið gæti bara sisvona leyst til sín Arion banka án þess að nokkur greiðsla kæmi fyrir. Væntanlega var hv. þingmaður þar m.a. að vísa til þess að íslenska ríkið ætti kröfu á bankann upp á 84 milljarða, sem reyndar stendur ekki nema í 35 milljörðum núna, og menn ætluðu að sveifla því skuldabréfi til að leysa bara allan bankann til sín.

Það sem eiginlega út af stendur hjá hv. þingmanni í öllum hans málflutningi er spurningin: Hvers vegna í ósköpunum ætti íslenska ríkið að leggja fram tugi milljarða, ef ekki á annað hundrað milljarða, til að eignast þriðja bankann þegar íslenska ríkið er nú þegar með langstærstu hlutdeild allra ríkja í Evrópu í fjármálakerfi sínu?