148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

ráðherraábyrgð.

[10:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir áhorfendur verð ég að byrja á því að gera greinarmun á Landsrétti og landsdómi. Landsréttur er millidómstig milli héraðsdómstólanna og Hæstaréttar. Landsdómur er fyrirbæri sem fyrirfinnst í 14. gr. stjórnarskrárinnar en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Þetta er hugsað til þess að það sé dómstóll um ráðherraábyrgð. Hann hefur einungis einu sinni dæmt í máli og það var í máli Geirs H. Haardes á sínum tíma. Síðan þá hefur nákvæmlega enginn pólitískur vilji verið til þess að nýta þennan landsdóm. Ég hendi því svona inn í leiðinni að tekið er á þessu í frumvarpi stjórnlagaráðs, eins og mörgu öðru sem maður talar um hérna.

Það liggur fyrir að ákveðið tómarúm er í pólitískri ábyrgð á Íslandi. Maður hefði þá haldið að hæstv. forsætisráðherra bæri ábyrgð á setu annarra ráðherra en ef maður spyr hana bendir hún á formann Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn — ég er augljóslega að tala um hæstv. dómsmálaráðherra — nefnilega hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktsson. Einn bendir á annan og öll þessi ábyrgðarkeðja virðist vera heldur óskýr.

Mig langar þá að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sé ábyrgur fyrir setu annarra ráðherra síns flokks í ríkisstjórn. Ef svo er ekki, hver er þá ábyrgur fyrir því?