148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

kjör öryrkja.

[10:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að ræða stöðu öryrkja, stöðu þeirra sem hafa ekki fengið 40% hækkun kjara sinna á síðustu fjórum til fimm árum, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir að sé hinn almenni veruleiki á vinnumarkaðnum í dag. Um leið og hæstv. fjármálaráðherra segir þetta er hann í raun að viðurkenna að það sé búið að brjóta 1. mgr. 69. gr. almannatryggingalaga varðandi kjör öryrkja. Það er stór hluti, hátt í 20.000 Íslendingar, öryrkja sem býr við svo ömurleg kjör að ná ekki endum saman og reisn þeirra er akkúrat engin.

Ég veit að við fáum ekki fjármálaáætlunina strax í hendur, fáum ekki að sjá hana og búið að fresta því eitthvað en nú veit maður að það er verið að vinna í þessari áætlun fullum fetum. Það hlýtur að vera, maður hlýtur að gera ráð fyrir að allt sé á fullri ferð hvað það varðar og því spyr ég: Er einhvers staðar gert ráð fyrir því að bæta kjör öryrkja? Er það einhvers staðar í þessari áætlun fyrst ekki var gert ráð fyrir því í fjárlögum sem gilda fyrir árið 2018? Er það einhvers staðar? Nú hafa hv. þingmenn sem eru í sama flokki og hæstv. fjármálaráðherra virkilega lýst yfir stuðningi við það og viðurkennt í þessum ræðustóli að það sé ólíðandi og algerlega óviðunandi í okkar góðæri að stór hópur Íslendinga búi við það kröpp kjör að hann nær engan veginn endum saman.