148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

kjör öryrkja.

[10:58]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að við höfum lausn, einfalda lausn sem hefur alltaf verið hér en það hefur náttúrlega verið horft fram hjá henni. Hún er einfaldlega sú að gefa öllum öryrkjum sem mögulega geta kost á að fara út á hinn almenna vinnumarkað og vinna, greiða skatta sína og skyldur og þannig hugsanlega hífa sig upp út fátæktargildrunni. Stór hluti öryrkja, og vöxtur öryrkja seinni árin, er ungt fólk sem er líkamlega burðugt til að vinna en á andlega mjög erfitt. Hvernig getum við hjálpað því að komast út úr þeim ramma og þeim skugga sem það lifir í í dag? Við getum gert það með því að gefa því aðlögun, gefa því t.d. tvö ár úti á hinum almenna vinnumarkaði, leyfa því að fóta sig sjálft þar. Það borgar skatta sína og skyldur og við skerðum það ekki um eina einustu krónu. Þetta hafa Svíarnir sannreynt: Yfir 30% öryrkja skiluðu sér ekki inn á bótakerfið aftur því að það var það mikið hagsmunamál og mikil lækning fyrir þá að komast út í samfélagið á ný. Það erum við, við hér, sem getum hjálpað þeim nákvæmlega svona.