148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

kjör öryrkja.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála því að búa þarf til eitthvert tímabil eins og það sem hv. þingmaður nefnir til þess að fólk geti látið reyna að starfsgetu sína án þess að óttast að kerfið hafi skellt hurðunum í millitíðinni. Þetta er stór málaflokkur, þetta er auðvitað mjög viðkvæmur málaflokkur. Það eru vísbendingar, og við verðum að geta rætt það í þingsal og í þinginu almennt, um að við séum vegna mistaka á fyrri stigum vandans að fá allt of marga inn á örorku. Þar má t.d. vísa til þess hversu margt ungt fólk hefur á forsendum andlegra veikinda komið inn á örorku á síðustu árum. Það eru sterkar vísbendingar um að tengsl séu t.d. við fíkniefnanotkun. Við verðum að bregðast við því og við þurfum að standa okkur miklu betur í forvörnum, í félagsþjónustu, sálgæslu og öðru slíku. Það mun skila sér margfalt, bæði í auknum lífsgæðum, sem er aðalatriðið, en það mun líka skila okkur meiri styrk til að styðja við þá sem raunverulega þurfa á stuðningi almannatryggingakerfisins að halda.