148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

formennska í Norðurskautsráðinu.

[11:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þetta tækifæri og vil fara yfir mikilvægt málefni með hæstv. utanríkisráðherra. Við tökum við formennsku í Norðurskautsráðinu 2019, eftir tíu mánuði. Það dylst vonandi engum að þetta er mjög mikilvæg staða sem við fáum þar og við getum haft mikil áhrif í tveggja ára formennskutíð. Haldinn var eins konar hugarflugsfundur haustið 2016 um eitt og annað sem því tengist og síðan hefur undirbúningsvinna verið á herðum utanríkisráðuneytisins.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað undirbúningnum líður og með hvaða hætti hann fari fram og hef strikað upp þrjá flokka atriða, sem við getum kallað svo, sem þarf að skoða. Það eru áhersluatriði Íslands í þessi tvö ár; hafið, lífríki þess, súrnun hafsins, orkuöflun á norðurslóðum utan Íslands, samskiptanet á norðurslóðum utan Íslands, félagsleg velferð, t.d. andóf gegn vímuefna- og áfengisnotkun ungs fólks eins og verið hefur í umsjá Vestnorden eða Vestnorðurráðsins og við í þingmannanefndinni sem starfar höfum áhuga á að dreifa því yfir allar norðurslóðir. Ég nefni hlutverk stofnana og ekki síður þingsins sjálfs eða okkar í því öllu saman og síðan alþjóðlega eða erlenda kynningu á því sem við ætlum að gera. Það er mikilvægt að fram komi hvað við ætlum að gera utan hins hefðbundna starfs Norðurskautsráðsins. Aðrar þjóðir þurfa að vita það.

Þetta er það þrennt sem mig langar að fá svör við ásamt því hvernig þessu vindur fram.