148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

formennska í Norðurskautsráðinu.

[11:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga og stóra máli. Eins og hv. þingmaður nefnir réttilega er þetta eitt stærsta viðfangsefni sem við höfum tekist á við í langan tíma. Auðvitað höfum við verið með formennsku á þessum vettvangi áður en ég held að óhætt sé að segja að vægi málaflokksins hafi aukist og sömuleiðis hefur Norðurskautsráðið fram til þessa og verður það vonandi áfram verið góður vettvangur til þess að taka á þessum verkefnum sem verða mikilvægari með hverju árinu.

Undirbúningur hefur verið í forgangi hjá okkur í utanríkisráðuneytinu hvað þetta varðar. Það er ekki langt í að við förum að kynna áherslur okkar bæði í ríkisstjórn og hjá hv. utanríkismálanefnd. Síðan förum við í það sem hv. þingmaður nefndi hér, að það er ekki nóg að við séum meðvituð um verkefnin hér innan húss og í Norðurskautsráðinu sjálfu heldur skiptir máli að við notum tækifærið og vekjum athygli á þeim eins víða og mögulegt er, ekki síst er mjög mikilvægt að Íslendingar, þjóðin, komi að þessu með sem skýrustum hætti. Formennskan er auðvitað í tvö ár en áfram heldur málið. Norðurskautið í heild sinni er að verða mikilvægara í öllu tilliti, þó að það hafi alltaf verið mjög mikilvægt, en út af loftslagsbreytingum og þeim breytingum sem þær munu hafa í för með sér er í mjög mörg horn að líta.

Hv. þingmaður nefndi mjög mikilvæga hluti sem allir eru skoðaðir. Mér finnst lykilatriði í umræðum um norðurskautið og lykilorðið vera sjálfbærni. Það er ekki bara sjálfbærni hvað snýr að umhverfismálunum heldur sömuleiðis félagsmálunum eins og hv. þingmaður nefndi, efnahagsmálunum og ýmsu öðru. Ég skal viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að tæma mig hér um þetta mikilvæga mál á tveimur mínútum (Forseti hringir.) en ég vonast til þess að við fáum tækifæri til að ræða þetta betur á þessum vettvangi.