148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

formennska í Norðurskautsráðinu.

[11:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. utanríkisráðherra fyrir svörin og vil nefna einn punkt sem ég var með og hann gæti kannski upplýst okkur meira um. Hvaða málefnaáherslur hefur borið hæst í undirbúningsvinnunni? Ég nefndi súrnun hafsins sem dæmi. Getur hann upplýst okkur eitthvað um það?

Síðan er mikilvægt að vekja athygli á því að kominn er nýr leikandi með viðamikið hlutverk inn í norðurslóðir og það er Kína sem er nýbúið að gefa út hvítbók um stefnu sína í norðurslóðamálum, sem skiptir gríðarlegu máli.

Ég vil nota síðustu mínúturnar til þess að hvetja þingmenn til að fylgjast vel með undirbúningi, taka þátt eftir því sem það er hægt í honum og stunda svo viðamikil og mikilvæg störf á meðan því stendur í því að halda hagsmunum sjálfbærra nytja og verndunar á norðurslóðum í heiðri.