148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

formennska í Norðurskautsráðinu.

[11:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Allt það sem hv. þingmaður nefndi er auðvitað það sem menn eru að fara yfir núna og munu með einum eða öðrum hætti verða áherslur okkar. Hins vegar skiptir máli að við setjum málin þannig fram og vinnum með þeim hætti að við munum skila einhverjum árangri á þessu formennskutímabili sem tekið verður eftir.

Hv. þingmaður nefnir Kína og það eru fleiri ríki í Asíu sem líta mjög í þessa átt. Það sem er að gerast, þegar siglingaleiðirnar opnast, þá er það ekkert ósvipað því þegar Panama-skurðurinn og Súez-skurðurinn, svo maður líti á einhverja sögulega atburði, og breytingarnar sem urðu þegar þær leiðir opnuðust. Siglingaleiðin milli Evrópu og Asíu gæti styst um allt að 40–60% við þessar breytingar og þær gerast hraðar en menn væntu.

Það þýðir svo sannarlega mikið af áskorunum og miklar hættur, auðvitað tækifæri líka. Við hv. þingmaður þurfum lengri tíma til að ræða þessi mál hér og ég ætla ekki að kynna þessi mál annars staðar en á réttum vettvangi, (Forseti hringir.)en ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málinu og góðar fyrirspurnir.