148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Atvinnulíf stendur í blóma víðast hvar á landsbyggðinni. Svo er komið að þar stendur skortur á hentugu íbúðarhúsnæði víða í vegi fyrir auknum og nýjum atvinnutækifærum. Fjölmörg öflug fyrirtæki í iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu kalla eftir að byggt sé húsnæði fyrir starfsmenn. Greining hagdeildar Íbúðalánasjóðs bendir til að mikil þörf sé á uppbyggingu hentugs íbúðarhúsnæðis á ýmsum þéttbýlissvæðum allt í kringum landið. En undanfarinn áratug hefur ekkert húsnæði verið byggt á mörgum stöðum og staðan er alvarleg, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra.

Ástandið er til mikils vansa því að aðgangur að viðunandi húsnæði er þjóðfélagslega hagkvæmt og heilsufarslega nauðsynlegt. Að tryggja fólki búsetu í viðunandi og öruggu húsnæði. Það er lykilatriði til að okkur vegni vel sem einstaklingum, fjölskyldum og sem samfélagi í heild.

Lánastofnanir hafa verið tregar til að veita lán til margra staða utan höfuðborgarsvæðisins og sett óaðgengileg skilyrði. Þá eru þeir byggingaraðilar ekki margir sem sjá hag í að hætta fé sínu úti á landi því að krafan um skjótfenginn arð er jafnan höfð í fyrirrúmi. Aðkoma stjórnvalda er nauðsynleg.

Það þarf þolinmótt fé til uppbyggingar líkt og tíðkast hefur t.d. varðandi dreifðar byggðir í Noregi með stuðningi Husbanken, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs. Þar hefur sú stofnun ekki orðið fyrir alvarlegum útlánaskaða. Þetta er fær leið, en það þarf pólitískan vilja og pólitíska sýn.

Íbúðalánasjóður á að vera og er verkfæri stjórnvalda í þessu efni og hefur þá ábyrgð að framfylgja stefnu þeirra hverju sinni. Greining Íbúðalánasjóðs leiðir í ljós að þörf er á miklu átaki. Næstu ár er þörf á a.m.k. 2.200 nýjum íbúðum árlega, fyrst og fremst í litlum einingum. Bætt staða fólks á leigumarkaði og örvun nýbygginga, ekki síst á landsbyggðinni, eru því (Forseti hringir.) hvort tveggja stór verkefni. Þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar, sem lögð hefur verið fram um byggingu 5.000 leiguíbúða, (Forseti hringir.) er liður í þessu stóra átaki.