148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu. Ég tek heils hugar undir það sem fram kemur í máli hans, að það er mikilvægt að ræða þessi mál í þingsal. Við höfum reyndar gert það nokkrum sinnum í þessu fyrirkomulagi, en í rauninni finnst mér þetta allt of knappur tími fyrir svona stórt og mikilvægt mál.

Ég tek líka undir með hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni og fagna skýrslu Íbúðalánasjóðs. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum greinargóðar og skýrar upplýsingar og gögn frá opinberum aðilum um þennan mikilvæga markað. En á sama tíma langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til þess að láta vinna enn betri greiningar.

Þetta er ágæt skýrsla til síns brúks. Eins og fram kom í máli ráðherra er áætlað að það skorti rúmlega 6.000 íbúðir í dag á landinu öllu. Megnið er á höfuðborgarsvæðinu. Ef við gefum okkur að tveir búi í hverri íbúð þá eru þetta 12.000 manns, eða 2,5, sem er nú yfirleitt hér á landi, þá eru þetta alls 15.000 manns.

Ég geri ekki lítið úr þeirri miklu þörf sem er á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu. Við búum við ákveðinn skort. En ég ætla samt að leyfa mér að efast um að það séu 15.000 manns sem ekki eigi þak yfir höfuðið, búi í foreldrahúsum og hafi fjármagn eða væru tilbúnir til að kaupa sér íbúð. Ég held að það sé stóra málið, annars vegar þegar við reiknum út frá þessum tölum og hins vegar hvort kaupgeta sé til staðar hjá því fólki sem er inni í þessum tölum.

Þá langar mig líka að koma inn á það sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. hvernig húsnæðismálum væri fyrir komið í okkar pólitíska umhverfi og að þessi mál séu hjá þremur ráðherrum; hjá hæstv. ráðherra, sem við eigum samtal við hér, og svo hinir mikilvægu þættirnir sem eiga heima hjá umhverfisráðherra og sveitarstjórnarráðherra. Ég held að við þurfum að fara að taka þá umræðu af einhverri alvöru (Forseti hringir.) um hvort þetta sé skynsamlegt fyrirkomulag og hvort ástæða sé til þess að breyta og horfa kannski til þess sem félagar okkar annars staðar á Norðurlöndunum hafa verið að gera.