148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og lýsa því yfir að ég er sammála málshefjanda hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni varðandi þá alvarlegu stöðu sem uppi er á íbúðamarkaðnum. Ég held að því miður megi lýsa því þannig að við séum á dekkinu á Titanic enn að skrúbba það og ísjakinn nokkra metra frá okkur. Ég held að það sé ágætisnálgun sem hæstv. ráðherra tók hér áðan, að íbúðakerfið taki við ákveðnum hlutum þessa vandamáls. Það þarf að vinna áætlanir og það þarf að vinna miklu betri áætlanir en nú eru unnar, en síðan eru lóðaúthlutanirnar dálítið inni í framtíðinni.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er algjört framboðsvandamál. Það er náttúrlega ótrúleg staða að Samtök iðnaðarins til að mynda telji sig knúin til þess að skora á Reykjavíkurborg að útlista hvaða lóðir það eru sem eru til ráðstöfunar. Menn hafa talað um það árum saman að það sé erfitt að búa í glærusjóum Reykjavíkurborgar, þar sé lítið skjól. Síðan koma yfirlýsingar frá fulltrúum Reykjavíkurborgar um að það sé verið að úthluta þúsundum á þúsundir ofan lóða. Samtök iðnaðarins, sem eru nú sennilega þau samtök sem hafa hvað bestar upplýsingar um þessi mál, bara yppta öxlum og biðja um útskýringar, hvar í veröldinni eru þessar lóðir allar? Þetta er auðvitað ótæk staða.

Ég held að við þurfum að ráðast til atlögu við framboðsvandann. Hitt verður að vinnast jafnt og þétt. En við getum ekki tekið á framboðsvandanum aftast í röðinni, það er alveg ljóst. Ég vil brýna þá sem hér sitja og hæstv. ráðherra til að hafa það í huga að við þurfum að ráðast með réttum hætti að því vandamáli sem fyrir okkur er, því það er risavaxið.