148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er löngu sprunginn. Framboð á íbúðarhúsnæði hefur ekki fylgt þeirri miklu fólksfjölgun sem hefur verið hér og einnig kemur til nýting húsnæðis til útleigu til ferðamanna. Allir þekkja afleiðingarnar, uppsprengt verð á húsnæði til leigu og kaups.

Miðað við framtíðarspár á þörf á byggingu nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu er reiknað með áframhaldandi miklum fólksflutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins en víða á landsbyggðinni er mikill íbúðaskortur, húsnæðisskortur, sem stendur byggðaþróun fyrir þrifum. Á mörgum stöðum hefur ekki verið byggt nýtt húsnæði í áratugi og hefur það unnið gegn atvinnuuppbyggingu og fjölgun íbúa.

Það reynist erfitt að fá fjármálastofnanir og verktaka til að fjárfesta í uppbyggingu íbúða á landsbyggðinni og sveitarfélögin hafa sjaldan fjárhagslega burði til fara í slíkar framkvæmdir án stuðnings.

Lög um almennar íbúðir frá 2016 hafa vissulega stuðlað að uppbyggingu leiguhúsnæðis fyrir lágtekjufólk en fyrst og fremst er það á þéttbýlisstöðum landsins enn sem komið er.

Ég hef miklar áhyggjur af neikvæðri byggðaþróun á landsbyggðinni. Ef ekki er framboð af góðu og öruggu húsnæði fyrir t.d. ungt fólk, tekjulága og aldraða er verið að stýra íbúaþróun með beinum og óbeinum hætti frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, þangað sem fjármálastofnanir beina fjármagninu til uppbyggingar með tilheyrandi þenslu á höfuðborgarsvæðinu og byggðaröskun á landsbyggðinni.

Íbúðalánasjóður hefur stórt hlutverk með því að beina fjármagni til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni. Ég fagna því þeirri ályktun hjá stjórn Íbúðalánasjóðs að setja líka landsbyggðina á oddinn, sem er mjög mikilvægt. Það er allt of stór hópur tekjulágra í landinu sem er í húsnæðishrakningum og þörf er á auknu framboði á félagslegu húsnæði. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um öruggt húsnæði óháð efnahag og búsetu og því verður að fylgja eftir með krafti og fjármagni.