148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka upp hið brýna mál sem húsnæðismálin svo sannarlega eru. Eins vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hans til þessarar umræðu sem og öðrum.

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og heimilið þar á meðal. Það gerast varla stærri mál en húsnæðismálin. Þau hafa ratað í ógöngur í samfélagi okkar. Það er alveg rétt sem hér hefur verið nefnt að framboðshliðin hefur verið ófullnægjandi. Það er mjög brýnt að þar verði bætt úr. Við erum þar að tala um lóðaframboð, reglugerðir, byggingarreglugerðir og lagalega umgjörð, og um skilvirkni í málaflokknum á vegum sveitarfélaga. Ekki er annað að sjá en að þar megi bæta úr á öllum þessum sviðum.

Ég vil sömuleiðis þakka fyrir vel unna skýrslu af hálfu Íbúðalánasjóðs. Skýrslan er eins konar vekjaraklukka eða viðvörunarbjalla um hvað við höfum í raun ratað í miklar ógöngur í þessum efnum. Lóðaskorturinn hefur að sínu leyti leitt af sér skort á framboði. Það hefur leitt af sér hækkun á verði íbúðarhúsnæðis. Við vitum alveg hvernig háttar til á kaupendahliðinni. Þeir standa frammi fyrir því að þurfa að klífa þrítugan hamarinn varðandi fjármögnunina. Það er mál sem við þurfum að ræða miklu ítarlegar. Þær ógöngur sem við höfum ratað í í þeim efnum með séríslenskt og sérviskulegt kerfi sem á sér engar hliðstæður í (Forseti hringir.) nágrannalöndunum. En ég ítreka þakkir mínar fyrir umræðuna og hvatningu um að þessi mál verði rædd miklu meira á þessum vettvangi.