148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:41]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langar að þakka málshefjanda fyrir að taka þetta upp hér í þinginu, umræðu um þessi mál sem eru gríðarlega mikilvæg. Það er markaðsbrestur víða í kerfinu. Að mörgu leyti sögulegur. Ég hef oft bent á og rætt á öðrum vettvangi um hvernig þessi mál hafa verið á höfuðborgarsvæðinu, skoðað tölur. Árin 1994–2014 fjölgaði íbúðum í Reykjavík um 18% en í kraganum í kringum Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði, um 76%. Ég held að í þessu liggi að mörgu leyti rót vandans. Þetta segir rosalega mikið um framboð á lóðum og hvernig menn hafa farið í hlutina. Menn hafa farið hratt fram við þéttingu byggðar en skilið möguleika á nýjum svæðum út undan, það hefur verið stór hluti af þessari þróun.

Ég vil síðan aðeins koma inn á annan punkt. Víða á landsbyggðinni, á ákveðnum vaxtarsvæðum, segjum Húsavík, Vesturbyggð — í laxeldinu þar —, er ekki hægt að byggja. Það er dýrt að byggja, allt of mikill munur á milli markaðsverðmætis og byggingarkostnaðar. Ég velti því fyrir mér hvernig menn ætla að ná utan um það. Ég hef áhuga á að fá svör hæstv. ráðherra við því hvernig hann sjái fyrir sér að koma til móts við þetta.

Það er síðan annar punktur að mjög hátt uppgreiðsluverð er hjá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður er með lánin sín úti á landi. Menn geta ekki endurfjármagnað. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál í einhverju samhengi, hvernig við eigum að ná þessum markaðslegu forsendum fram.

Ég hef líka áhuga á þessari umræðu og kæmi mögulega með fyrirspurn um það hvernig þessi markaður skiptist í dag, lánamarkaðurinn á Íslandi, í íbúðalánum. Annars vegar höfuðborg/landsbyggð og síðan aftur Íbúðalánasjóður/lífeyrissjóðirnir og bankastofnanir. Ég hef áhuga á því hvert menn lána.

En þetta er stórt efni og maður fær skamman tíma.