148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér var tæpt á nokkrum málum sem ég ætla aðeins að endurtaka. Jú, það eru engar skammtímalausnir í þessu en það er hægt að byggja ansi hratt við vissar kringumstæður og með vissum tegundum af lausnum. Vandamálið núna er að ekki er unnið út frá nýjustu gögnum. Tíminn sem það virðist taka sveitarfélögin að taka mið af nýjustu gögnum virðist allt of langur. Þar held ég að ráðherra ætti að koma dálítið inn í og ýta á eftir.

Ég hvet ríkisstjórnina og ráðherra til að sýna þessum málum áhuga í fjármálaáætlun hvað varðar hlutverk hins opinbera, að gæta þar að. Ég var t.d. með fyrirspurn um fjölda félagslegra íbúða í öllum sveitarfélögum landsins þar sem kom á daginn að þær eru frá 0% upp í 52,4%. Það er nokkuð sem hægt er að fylgjast með.

Ég vonaðist eftir upplýsingum frá ráðherra um hlutdeild hans málefnasviðs í þessu vandamáli, vegna uppleggs þessarar umræðu um stöðu fjárlaga til málaflokksins þar sem skýrslan sýnir heildina. Ég vonaðist eftir hlutdeild hins opinbera í þessum vanda. Hvar erum við stödd, hvað getum við gert til að ná þeim uppsafnaða vanda sem snýr að hinu opinbera? Hvernig við getum t.d. aukið í varðandi stofnframlögin, félagsíbúðir stúdenta og Íbúðalánasjóð.

Hér var minnst á kaupgetu. Vandamálið er nákvæmlega að verðið hefur hækkað svo mikið að fólk hefur ekki undan að safna sér fyrir íbúð. Vandamálið er ekki að fólk hafi ekki kaupgetuna heldur að íbúðaverðið hefur hlaupið burt. Þessi uppsafnaði vandi er einfaldlega munurinn á íbúahlutfalli í íbúðum núna, hvernig það var og hvað það hefur aukist. Það er ekki skortur á kaupgetunni heldur veldur þar hækkunin og framboðsskorturinn.

Nú var talað um áhrifin vegna aðgerðanna 2013–2016. Við verðum að segja að núverandi ástand hlýtur þá að vera afleiðing þess að einhverju leyti.

Og örstutt um þéttingu byggðar sem var talað um og hvernig við erum í þeim vandamálum (Forseti hringir.) að vera með þétta byggð núna þar sem rosalega mikið var dreift úr byggð áður. Við þurfum að finna eitthvert jafnvægi þarna á milli.