148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:54]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða. Það er erfitt að koma öllu að á tveimur mínútum, ég þyrfti eiginlega 20 mínútur til að svara öllum þeim góðu ábendingum og spurningum sem beint var til mín.

Ég byrja á því sem hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson og Logi Einarsson komu inn á. Það hefur gefist vel það fjármagn sem var sett inn í þetta almenna íbúðakerfi og stofnframlögin. Gert er ráð fyrir því í ríkisfjármálaáætlun að það sé aukið áfram. Sá sem hér stendur leggur áherslu á að settar verði auknar fjárveitingar í þetta í fjármálaáætlun. Þó vil ég benda á að á árinu 2017 var engri umsókn hafnað. Það er fyrst núna — og það var það sem ég var að tala um þegar þetta tekur svona langan tíma að koma inn — í seinni úthlutun 2017 þar sem eru að koma fleiri umsóknir. Ég hef lagt til að fyrri úthlutun 2018 og 2017 sameinist þannig að við þurfum ekki að hafna neinum umsóknum.

Þetta er vandi að vísu. Þetta tekur allt svo langan tíma. það er ekki bar ríkisvaldið, það eru þeir sem eru úti á byggingarmarkaðnum, sveitarfélögin o.fl. Það er okkar að reyna að þrýsta á þetta.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á landsbyggðina því ég næ ekki miklu hér í viðbót. Ég byrja á því að umræðan eftir hrun um að leggja niður Íbúðalánasjóð og loka honum — ég held að í þessari umræðu endurspeglist hve mikilvægt var að sá slagur tapaðist ekki á sínum tíma. Okkur tókst að gera þær breytingar á Íbúðalánasjóði að hann gæti orðið sú stofnun sem á að verða lykilstofnun í að framkvæma stefnu stjórnvalda hverju sinni. Við þurfum að gera fleiri breytingar. Við þurfum að koma inn greiningum, að Íbúðalánasjóður megi kalla eftir fleiri gögnum. Það frumvarp er á leiðinni, væntanlegt strax eftir kjördæmaviku. Við þurfum að styrkja þessar húsnæðisáætlanir og samstarf við sveitarfélögin. Það er inni í því frumvarpi.

Ég geri líka ráð fyrir að í því frumvarpi verðum við með ákvæði um lækkun vaxta sem mun koma sérstaklega vel við landsbyggðina. Ég hef lagt mikla áherslu á það sem snýr að landsbyggðinni nú á fyrstu metrunum. Íbúðalánasjóður hefur þegar byrjað vinnu við það. Gert er ráð fyrir að þar verði birt einhvers konar aðgerðaráætlun innan þriggja mánaða sem unnin verður í samstarfi Íbúðalánasjóðs og stjórnvalda.

En þetta er mikilvæg umræða. Hún er brýn. (Forseti hringir.) Ég hefði örugglega þurft að hafa tíu sinnum lengri tíma til að svara öllu sem var beint til mín hér í dag.