148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna um þetta frumvarp. Það er sannarlega ástæða til að það frumvarp komi fram en auðvitað þurfum við hér í þinginu að fara yfir það. Þetta er flókið mál, þetta varðar mörg lög og margar stofnanir.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og margir hv. þingmenn, að ekki sé skynsamlegt að markaðar tekjur ráði því hvernig stofnanir þróast á Íslandi; að þær dragi saman starfsemi sína þegar markaðar tekjur dragast saman og vaxi svo fiskur um hrygg þegar þær verða hærri. Það er ekki mikil skynsemi í því og lögin um opinber fjármál gera ekki ráð fyrir því að þannig sé stofnanaþróunin í landinu.

Réttindin á vinnumarkaði eru annað mál. Þegar við í þáverandi fjárlaganefnd fengum umsagnir um frumvarpið sem þá var til umræðu, um markaðar tekur, bárust meðal annars athugasemdir frá Alþýðusambandi Íslandi, svolítið sterkar. Í þessu frumvarpi er tekið tillit til þeirra athugasemda að hluta. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna var ekki tekið tillit til þeirra allra, hver eru rökin fyrir því að framlög til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og gjald til starfsendurhæfingarsjóða eru tekin út fyrir sviga, að þar verður ekki mörkun, ef frumvarpið verður samþykkt? Og eins spyr ég varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra. ASÍ gerði ákveðnar og alvarlegar athugasemdir við þessi atriði. Ég vil spyrja hv. ráðherra: Hver eru rökin fyrir því að taka ekki tillit til þeirra?