148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil draga fram úr ræðu hennar, sem hún nefndi svo réttilega, vandamálin sem hafa blasað við okkur vegna markaðra tekna. Auðvitað er þetta mál bara hluti af öðru og stærra máli, sem eru lög um opinber fjármál. Ég vil reyndar venja mig af því að kalla þau hin nýju lög um opinber fjármál því að þau hafa verið í gildi í nokkurn tíma.

Hv. þingmaður dró t.d. fram vanda vegna fjármagns til vegagerðar. Mér finnst mjög mikilvægt, þó að það sé kannski eins og að moka sandi, að taka þá ræðu sem ég ætla að taka hérna. Veruleikinn er sá að við höfum lagt meira fjármagn til vegagerðar en mörkuðu tekjurnar eru. En víða í hinni almennu umræðu er talað um að við skuldum milljarða króna. Og tilgangur þessarar ræðu er ekki síst að bera blak af þeim vondu stjórnmálamönnum sem rændu vegafénu úr samgöngukerfinu, og draga það fram með þessum hætti að Alþingi hefur ákveðið að leggja meiri fjármuni til vegagerðar á undanförnum árum en hinar mörkuðu tekjur. Þá veltir maður líka fyrir sér, hver er þá raunverulega orðinn tilgangur markaðra tekna? Eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni.

Mér finnst mikilvægt að við drögum þetta fram í umræðunni, stundum til að reyna að leiðrétta þennan kúrs. Nú er væntanlega, samkvæmt þeim nýjustu tölum sem ég hef séð, neikvætt bundið eigið fé Vegagerðarinnar um 19 milljarðar kr. sem segir okkur að við höfum sett með fjárlögum Alþingis og samþykktum Alþingis hverju sinni 19 milljörðum meira til vegagerðar en hinar mörkuðu tekjur. Þetta vildi ég draga fram.