148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið.

Lagt meira til en mörkuðu tekjurnar, það má vera, en það er þá gjarnan í formi þess að ríkisstjórn á hverjum tíma ákveður eitthvað utan hins hefðbundna ferlis, þ.e. við erum með samgönguáætlun sem við eigum að fjármagna en ekki að vera að taka einhverjar spesífískar, fyrirgefið, ákvarðanir eins og hefur því miður verið gert. Ég held að við séum öll sammála um að vegabætur þurfi að vera meiri og betri en þær eru.

En það er alveg rétt og tilgangurinn er sá að draga það kannski fram að þessi mínus er fyrirliggjandi. Við getum ekki neitað því, hvað sem okkur finnst um samgönguáætlun sem er í gildi, að hún er ekki fjármögnuð. Þess vegna þurfum við að finna okkur einhverja stöðu í því hvert upphafið á að vera, hvað er eðlilegt framlag árlega til vegaframkvæmda. Það getur auðvitað verið mismunandi á hverjum tíma, ég ætla ekki að segja það, við erum samt með vanfjármagnaða innviði. Við erum öll sammála um það. Það þarf meira. Meira í mjög langan tíma, ég held það. Þess vegna er ég að draga þetta fram.

Ég vil líka fá að vita hvernig við ætlum að fara með þá milljarða sem eru bundnir í neikvæðu eigin fé eins og sagt er. Við höfum ekki fengið nein svör við því hvort það verður hreinlega afskrifað eða hvort það verður dregið frá fjárframlögum, þ.e. þau verði lækkuð á móti, eða hvað?

Við væntum þess að fá samgönguáætlun í haust. Þá kemur það auðvitað fram og hún á að stemma við ríkisfjármálaáætlun, þannig að ég vona að við förum að ná einhverju samhengi. En mér finnst mikilvægt að vita þetta með upphafið, hvernig það á að líta út.