148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:29]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður deilum ekki um þörf á bættum vegasamgöngum eða framkvæmdum í samgöngumannvirkjum og við getum svo sem sagt það um flesta málaflokka og málefnasvið, að þar sé mikil þörf.

En það sem ég vildi draga fram í þessu stutta andsvari var einfaldlega að segja: Við höfum varið þeim fjármunum sem hafa verið merktir.

Tilgangur frumvarpsins er, getum við sagt, að efla fjárstjórnarvald ríkisins. Þá hættum við kannski svona deilu sem við erum í núna og getum bara tekið hina pólitísku umræðu um hversu miklum fjármunum við eigum að verja til verkefnisins samgöngumála. Það hefur nefnilega borið á því í umræðunni, sem ég vitnaði hérna til áðan, að þetta séu tekjur um 70–80 milljarðar og það sé einungis hluta af þeim ráðstafað til vegamála.

Fjárstjórnarvaldið með þeim breytingum sem hér eru ræddar er sterkara. Þá getum við mótað stefnuna meira út frá hreinni pólitík og hreinum áherslum hverju sinni í staðinn fyrir að binda okkur í þessu um markaðar tekjur. En það eru plúsar og mínusar að sjálfsögðu við þetta mál. Ég tek undir mörg þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð um kosti og galla þess að gera þetta með þessum hætti.

Rætt hefur verið um þessar breytingar, að með einhverjum hætti eigum við að horfa til þeirra tekna sem áður voru markaðar til þess að meta á hverjum tíma hvar við stöndum í ráðstöfunum. En ég held að með öðru samtali eða öðrum vinnubrögðum sem við erum að tileinka okkur munum við fljótlega komast út úr þeirri tegund umræðu og taka hana meira út frá stefnu og markmiðum hverju sinni.