148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpið var ekki afgreitt með fyrirvara sem slíkum en fólk hefur ýmsar skoðanir á þessu og telur að nokkra þætti, eins og ég nefndi, þurfi að skoða betur áður en það sættir sig algerlega við orðalag eins og það er. En það var engin mótstaða, ef hv. þingmaður er að fiska eftir því. Ég hef verið mjög gagnrýnin, eins og hér kom fram, á að afnema markaðar tekjur þrátt fyrir að það standi í lögum um opinber fjármál. Eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á talar hann ekki lengur um ný lög en ég geri það vegna þess að þetta er enn partur af þeim. Þar er, eins og hv. þingmaður þekkir, gert ráð fyrir að þetta frumvarp fylgi á eftir. En það er vert að vera gagnrýnin, þetta er stórt og mikið mál. Ég held, eins og ég nefndi í ræðu minni, að við þurfum að skoða þetta vel. Ég myndi vilja fá skýrari línur um Vegagerðina, Framkvæmdasjóð aldraðra og ofanflóðasjóð. Þetta eru stærstu málin sem ég vil sjá skýrari línur um hvernig farið verður með.