148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[13:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem segir í þessum lið, að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið, er orðrétt upp úr stjórnarsáttmálanum. Ég lít svo á að hér sé fyrst og fremst verið að vísa til háspenntra loftlína og sjónmengunar sem þeim fylgir. Ýmsar tækniframfarir hafa átt sér stað á síðustu árum á sviði jarðstrengja, eins og við þekkjum. Í mínum huga er ástæða til að kanna enn frekar möguleika á sviði jarðstrengslausna miðað við íslenskar aðstæður. Hvað verður eftir einhver ár í þeim efnum, hvort sem það varðar tæknilegar lausnir eða kostnað, mun tíminn leiða í ljós.

Ég lít ekki svo á að verði þetta samþykkt óbreytt þýði það að við förum ekki með neinum hætti, aldrei, yfir hálendið þrátt fyrir að tekin sé út loftlínuhugmynd og tekin ákvörðun um að fara hina leiðina. En mér finnst líka mikilvægt að nefna að mér finnst við eyða of miklum tíma og krafti í að ræða hvora leiðina eigi að fara þarna vegna þess að við erum með risastór verkefni fyrir framan okkur. Ef við náum að vinna þau almennilega náum við miklum árangri í að efla flutningskerfi raforku næstu misseri án þess að horfa til þessara leiða. Auðvitað erum við alltaf að ræða um hringtengingu en það að tengja betur lykilsvæði. Ef maður horfir t.d. á Norðurlandið þá eigum við fullt í fangi með að klára þá vinnu á næstu árum. Í millitíðinni munu alls konar hlutir gerast í tækni. Mögulega eru einhver sjónarmið um hvað best sé að gera. Ég hef líka heyrt þau sjónarmið frá þeim sem eru hvað harðastir í umhverfisvernd að þeir vilji ekki jarðstrengi í jörðu vegna þess að þeir geti líka þýtt mikið rask á landi. Fyrst og fremst er verið að vísa til háspenntra loftlína. En eins og ég segi eru önnur verkefni sem eru mun mikilvægari á næstu misserum og ég held að við ættum að einbeita okkur enn frekar að þeim.