148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú er þetta alveg hin ágætasta tillaga sýnist mér á minni snöggu yfirferð og af ræðu hæstv. ráðherra að dæma. En ég velti svolítið fyrir mér fyrirkomulaginu á þessu vegna þess að nú hefur verið rætt um hversu gríðarlega mikil vöntun er á uppbyggingu á slíkum kerfum og það er mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf að auki sem Samtök iðnaðarins mátu um 70 milljarða í nýlegri skýrslu. Samt er þetta þannig að þessi áætlun eða stefna hefur í rauninni afskaplega takmörkuð bein áhrif á það hvað þeir aðilar sem eru á þessum markaði munu síðan koma til með að gera, þar sem í grundvallaratriðum eru auðvitað aðilar á borð við Rarik og Landsnet sem koma að þessari raunverulegu uppbyggingu. Þeir lúta í rauninni ekki beinlínis stjórn okkar sem erum á þinginu, ekki stjórn þingsins og ekki stjórn ríkisstjórnarinnar sem slíks, heldur fara þeir eftir sinni innri stefnu og þess háttar.

Ég velti fyrir mér á hvaða hátt á að tryggja að þetta allt saman komi til framkvæmda. Vegna þess að sumt er augljóslega mun betur til þess fallið að skila arði til þessara fyrirtækja. Þau verkefni verða væntanlega ofan á, en annað sem er í þessari stefnu er kannski eitthvað sem er mjög þjóðhagslega mikilvægt en er ekki endilega mikilvægt fyrir þessi tilteknu fyrirtæki og jafnvel önnur fyrirtæki á þessum markaði.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Kemur til greina að mynda einhvers konar eigendastefnu af hálfu ríkisins sem kemur til með að koma þessu í framkvæmd? Eða á hvaða hátt verður það tryggt að þessar góðu hugmyndir komist í rauninni til framkvæmda?