148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa metnaðarfullu þingsályktunartillögu. Svo sannarlega umlykja bjartsýni og bros landann ef jafna á orkuna til okkar allra og gefa okkur kost á að nýta hana sameiginlega. Verkefnið er stórt og mikið.

En í morgun fengum við til okkar góða gesti í atvinnuveganefnd sem eru sérfræðingar á þessu sviði og komu einmitt úr ráðuneyti hæstv. ráðherra. Þar hnaut ég um svolítið, eðli málsins samkvæmt, að í lögunum er talað um að taka út hugtakið „í jörðu“ þegar verið er að tala um uppbygginguna á raforkukerfinu. Staðreyndin er jú sú að við höfum séð að meginreglan er að reyna að leggja í jörðu þar sem nokkur kostur er, annað eigi frekar að vera undantekning, ef það er nauðsynlegt. Mér finnst það skipta máli ef taka á út þann öryggisventil. Mér finnst að við ættum að hafa áfram hugtakið „í jörðu“ í lögunum vegna þess að annað getur hugsanlega kallað á geðþóttaákvarðanir og annað slíkt þegar kemur að því að ákveða hvar leggja eigi línuna.

Við vitum um málarekstur sem verið hefur t.d. hérna á suðvesturhorninu þar sem landeigendur kröfðust þess að raflína yrði grafin í jörð af því að þeir vildu ekki hafa loftlínu. Ég segi að þetta gæti frekar orsakað meiri hártoganir, og sérstaklega að þarna gæti verið um ákveðinn geðþótta að ræða. Þar sem meginreglan er að tala um „í jörðu“ finnst mér algerlega ástæðulaust að taka hugtakið úr lögunum.