148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og fyrir að benda mér á það sem hafði farið fram hjá mér þrátt fyrir nokkuð ítarlega yfirferð; ég er búinn að yfirstrika og allt.

Ég skil þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra kemur fram með í orkustefnu og í hvaða röð eigi að gera hlutina. Eins og ég nefndi er ég ekki þeirrar skoðunar að ég hafi hina einu réttu leið í þessu. Ég var aðeins að velta þessu upp varðandi þessa tillögu. Nú veit ég ekki nákvæmlega, kannski man hæstv. ráðherra það, hvort annað fylgir í skyldu ráðherra en að leggja þessa þingsályktunartillögu fram, hvort það fylgir eitthvað um að Alþingi verði að samþykkja. Ég er ekki endilega viss um það. Ráðherra hefur í sjálfu sér uppfyllt sína lagaskyldu hér. Síðan er það þingsins að taka til meðferðar þessa tillögu.

Hvað varðar það ákvæði sem er í lögum núna og meirihlutaálit hæstv. atvinnuveganefndar sem hæstv. ráðherra vísaði í: Gott og vel að hafa þetta eins og það er í eitt ár. Ég er ekki alveg viss um að ég sé sannfærður með þau rök. Það er ýmislegt sem við erum í raun að breyta þó að við ætlum að endurskoða eftir eitt ár. Og mér finnst það bara almenn skynsemi að ef verið er að meta tvo kosti, hvort eigi að fara leið A eða B, þá sé horft á heildina. Ef kostnaður á yfir höfuð að ráða för, ráða einhverju um hvað á að gera, sé horft á heildina, ekki hverju þarf að punga út í upphafi eingöngu heldur hver verði heildarkostnaðurinn við hvorn kost um sig. Ég vona að ríkið geri það almennt þegar það er að taka ákvarðanir um sín fjárútlát.