148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ýmislegt um þessa tillögu og þessa stefnu að segja sem ég mun gera í ræðu minni síðar í dag. Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann, því að ég geri nú ráð fyrir að hann hafi nú fengið betri kynningu á þessu sem stjórnarliði en við sem sitjum í stjórnarandstöðunni, en hann var eitthvað að tala um útreikninginn á mögulegum kostnaði: Hefur þingmaðurinn gert sér í hugarlund hversu dýrir jarðstrengirnir mega vera versus loftlína? Því á hinum endanum eru einhverjir sem þurfa að borga fyrir rafmagnið, hvort það eru fyrirtæki eða fólk, t.d. úti á landsbyggðinni. Ég spyr hvort það sé eitthvert þak á því í huga þingmannsins hvað jarðstrengir megi vera dýrir.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann: Hér er sagt að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið. Hvað er átt við með hálendinu? Er það miðhálendið, erum við að tala um Tröllaskagann svo dæmi sé tekið, hálendi fyrir austan eða vestan? Er þarna eingöngu um að ræða miðhálendið eða er það allt hálendi Íslands sem ekki mega vera loftlínur á?