148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:29]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Í þingsályktunartillögunni er komið inn á það sem hv. þingmaður spurði um hvað varðaði mismunandi kostnað við jarðstrengi og loftlínur. Með leyfi forseta:

„Ef í framangreindum tilvikum kostnaður við að leggja jarðstreng er ekki meiri en tvisvar sinnum kostnaður við loftlínu á viðkomandi kafla skal miða við að leggja jarðstreng, nema ef ekki er talið tæknilega mögulegt að leggja jarðstreng …“ o.s.frv.

Það er viðmiðið. Ég er í sjálfu sér ekki með neitt annað viðmið sem ég held að sé rétt.

Hvað varðar raunverulegan kostnað sem hv. þingmaður spurði um er það einmitt þess vegna sem ég er að vekja máls á því að rétt sé að horfa á heildarkostnað á líftíma framkvæmdarinnar. Staðreyndin getur verið sú að þó að stofnkostnaður sé meiri sé heildarkostnaður á líftíma minni, einfaldlega vegna þess að við búum í þannig landi að loftlínur slitna oft á tíðum eða fara illa í veðri. Þetta þurfum við að meta, heildarkostnaðinn. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því hver á endanum þurfi að greiða fyrir hlutina. Einmitt í því ljósi finnst mér rétt að meta heildarkostnaðinn.

Hvað varðar hálendið játa ég það bara á mig að ég hef ekki sest niður með hæstv. ráðherra eða tekið það sérstaklega fyrir nákvæmlega hvað við er átt. Ég hef þó skilið það þannig þegar hér er vísað til hálendisins að það sé sem í umræðunni hefur verið, línur frá norðri til suðurs eða suðri til norðurs þvert yfir landið.