148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:35]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja við umræðu um þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, að á margan hátt býr landið og þjóðin við öfundsverða stöðu í þessum efnum. Við höfum almennt gott raforkuflutningskerfi og hagstætt verð á rafmagni. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við munum það í allri umræðunni. Við höfum hins vegar ákveðin verkefni — sumir vilja kalla það vandamál, ég vil kalla það verkefni — sem við þurfum að leysa úr, sem okkur hefur ekki gengið nógu greiðlega við á undanförnum árum. Það er kannski undirliggjandi í þessari umræðu að við reynum að fjalla um það með einhverjum hætti.

Í upphafi þegar verið var að leggja raflínur um borg og bæ fögnuðu menn komu rafmagnsins og liðkuðu mjög til fyrir því að það væri hægt að leggja með hagkvæmum hætti, einföldum hætti og sem hraðast og víðast um landið. Þá voru menn tilbúnir að leggja ýmislegt á sig og horfa í einhverjum tilfellum fram hjá einhverjum neikvæðum póstum til að svo yrði. En tímarnir hafa breyst. Við höfum annað gildismat, aðrar þarfir. Við tökum helst ekki eftir rafmagninu fyrr en það fer. Þá hrópum við hátt. Okkur finnst sjálfsagt að það sé alltaf í innstungunni eða slökkvaranum. En þetta er kannski miklu margbrotnara dæmi en svo.

Ég held að hv. atvinnuveganefnd, sem fær þetta þingmál, megi alveg ræða dýpra og nánar t.d. aðkomu sveitarfélaga að undirbúningi að línulögnum. Kannski er kominn sá tími að sveitarfélög ættu að taka sig saman um stefnumörkun um hvar línulagnir ættu að vera. Kannski á landshlutasvæðum. Við þingmenn Norðvesturkjördæmis þekkjum að sveitarfélög á Vesturlandi hafa náð saman um samgönguáætlun fyrir þann landshluta. Þau hafa forgangsraðað þar. Gætu landshlutasamtök eða sveitarfélög á öðrum vettvangi en landshlutasamtökunum náð samkomulagi um hvar meginflutningslínur rafmagns ættu að vera og hjálpað til við að liðka til fyrir endurnýjun og uppbyggingu sem við þurfum sannarlega á að halda?

Í öðru lagi vil ég nefna að hagsmunir landeigenda, bænda, eru aðrir en þegar menn stóðu á hlaðinu og fögnuðu rafmagninu. Gildismatið er annað. Mér hefur lengi fundist vanta viðurkenningu á því að tímarnir eru breyttir í þeim efnum. Mér finnst ekki einboðið að í dag sé þannig gengið um landið að ef við ætlum að leggja stóra línu segjum við: Gerið svo vel og víkið úr vegi fyrir okkur sem þurfum að koma þessu rafmagni áfram, heldur þurfum við að mæta landeigendunum meira á jafnréttisgrundvelli, sem snertir þá aftur þá hagsmuni sveitarfélaganna.

Ég nefni, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé áðan, samskipti landeigenda og flutningsaðila rafmagns, t.d. leigu á landi undir möstur og slíka þætti. Ég held að það séu allt tímanna tákn. Enn þá er það samfélagslegt verkefni að koma línulögnum um. Eins og segir í fyrsta þætti þingsályktunartillögunnar er það einn af grunninnviðum samfélagsins.

Þessir grunninnviðir samfélagsins skera sig sannarlega úr frá mörgum öðrum sem einnig eru nefndir í þingsályktunartillögunni, eins og t.d. vegakerfinu. Þótt nefndar séu samgöngur og fjarskiptainnviðir þakka ég oft fyrir að við höfum ekki meðhöndlað samgöngukerfið með sama hætti og raforkuflutningskerfið. Ég held að hv. atvinnuveganefnd verði að fara eilítið á dýptina á þeim þáttum sem fram koma í þingsályktunartillögunni, hvort það sé raunverulega hægt að framfylgja þeim eins og þeir eru þarna fram settir.

Ég segi að það verði að vera ákveðin vatnaskil í ákveðnum þáttum sem lúta að því sem ég gæti kallað skrifborðshluta raforkuflutningskerfisins, þ.e. hvað stjórnvöld, þeir sem ráða stefnumörkun í þessum efnum, geta sjálf leyst við skrifborðið, en ekki bara hvar hægt verður að leggja línur eða hvort þær eigi að vera í lofti eða í jörð. Ég geri að umtalsefni þá punkta í þingsályktunartillögunni sem fjalla um að koma rafmagninu sem víðast og stuðla að orkuskiptum í samgöngum og auknu aðgengi að rafmagnstengingum, vegna þess að frá því að við breyttum uppbyggingu raforkuflutningsmarkaðarins og raforkuframleiðslunnar með löggjöf frá árinu 2005, hafa tímarnir eðlilega breyst. Ég held að við þurfum líka að rýna í þá þróun sem hefur orðið frá þeim tíma.

Við vorum ógæfusöm þegar við ákváðum að hafa tvö tekjumódel fyrir flutning á rafmagni og skipta á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Tekjumarkað módel. Eftir því sem ég best veit erum við nánast eina ríkið sem farið hefur þá leið. Það má nefnilega alveg hafa eitt tekjumarkamódel þó að við höfum mismunandi gjaldskrá milli þéttbýlis og dreifbýlis. En það er sá munur sem ég vil gera að umtalsefni, þéttbýli og dreifbýli. Ég er í starfshópi sem iðnaðarráðherra hefur falið mér að leiða og starfa í, ég geri ekki nánari grein fyrir honum hér. En þegar ég kafa ofan í þessi mál get ég ekki orða bundist um að það hafa að mínu viti gerst óheppileg atvik sem ég gæti rökrætt þannig að við hefðum ákveðið að hafa orkuflutnings- eða orkuverð hér á höfuðborgarsvæðinu markvisst lægra en úti á landi og þannig ekki fylgt þeim punktum sem eru í yfirskrift þessarar áætlunar, að við séum ein þjóð sem eigi að njóta þessara gæða.

Þetta hefur t.d. þróast þannig að flutnings- og dreifingarkostnaður á rafmagni á dreifiveitu Rariks í dýrasta þéttbýlinu hefur hækkað um 44,5% frá árinu 2005. Flutningskostnaður í dreifbýli á svæði Rariks, sömu dreifiveitu í eigu ríkisins, hefur hækkað um 102%. Hjá Orkubúi Vestfjarða um 117% þegar vísitalan hefur hækkað um 82,5% á þessum tíma. Þarna hefur verið skorið á milli. Eðli tekjumarkaða kerfisins er með þeim hætti að við allar úrbætur sem við þurfum að gera þá bætist fjárfestingarkostnaðurinn við gjaldskrána. En það er helst eftirspurn eftir úrbótum í dreifbýlishlutanum hjá þeim sem þar búa og eru að byggja upp starfsemi, hvort sem það er í ferðaþjónustu eða í litlum gagnaverum, eins og þekkist líka að reka úti í sveitum. Um leið og við förum í aðgerðir til að bæta flutningskerfið og dreifiveiturnar þurfum við að hækka gjaldskrána. Á sama tíma og sú þróun hefur verið á dreifbýlisgjaldskránum hefur framlag ríkissjóðs til að jafna raforkukostnaðinn, sem við höfum ákveðið í lögum að eigi að ná ákveðnum markmiðum með, hækkað um 300% á þessum tíma, 2005–2017. Við erum samt með um 50% hærra flutningsgjald á rafmagni hjá þeim sem við ætluðum þó að jafna.

Það vil ég kalla skrifborðshluta raforkukerfisins, sem við megum alveg taka umræðu um í úrvinnslu á þessari þingsályktunartillögu. Ég hvet hv. atvinnuveganefnd til að skoða hana með skapandi hætti vegna þess að ég tel að við eigum ýmsa möguleika til að gera betur og breyta þessum áherslum. Þær verða ekki allar þægilegar. En ef við ætlum bara að ná markmiði okkar um orkuskipti í samgöngum, um að nota þessa grænu orku okkar með markvissari og betri hætti, þurfum við að setja alla þjóðina í sama bátinn í þessum efnum. Síðan gætum við haldið langar ræður um alla hina þættina sem ekki gefst tími til að gera hér, en í öllum aðalatriðum eru þeir punktar sem reifaðir eru í þessari þingsályktunartillögu ákaflega mikils virði, að við getum undirbyggt með það í huga að við séum óhrædd við að taka skrifborðshluta raforkukerfisins til endurskoðunar.