148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hv. forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðuna og líka fyrir þá umræðu sem er í gangi um þessa þingsályktunartillögu um raforkuflutning. Þar sem ég sit í atvinnuveganefnd er ég ein eyru sem nýliði á þingi um þetta mál. Ég er líka áhugamaður um raforkuflutning, um jafnan raforkuflutning yfir landið, hringinn í kringum landið. Ég hef stundum ekki alveg áttað mig á því hvernig á því stendur að hann er ekki betri en raun ber vitni, að uppi skulu vera þær aðstæður, t.d. eins og á Norðausturlandi, að á stundum þurfi að ræsa dísilvélar til að geta annað þörfinni á álagstímum og þar fram eftir götunum.

Talað hefur verið um umhverfissjónarmið í lögnum á raflínum og það hamli þeirri för. Ég er svo lánsamur að eiga sveinsbréf frá því árið 1981 í rafvirkjun og hluti af því að leggja raflagnir var að lagnirnar sæjust ekki neitt, heldur bara að rafmagnið ætti að virka. Eins og hv. þingmaður kom inn á, fólkið vill fá sitt rafmagn.

Mig langar að koma með spurningu til hv. þingmanns í tvennu lagi: Er þessi slæma þjónusta út af umhverfissjónarmiðum eða út af tvöföldu módeli, eins og þingmaðurinn orðaði það, í fyrirtækjum í raforkuflutningi?