148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:55]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé full þörf á því að við áttum okkur á svona hlutum. En kannski ég noti tækifærið og nefni það til viðbótar að við höfum sett ýmis lög, jafnvel ályktanir um byggðamál, í samninga við garðyrkjubændur til að mynda. Við höfum sett okkur markmið í raforkulögum, um að við ætlum að ná tilteknum markmiðum fyrir neytendur, sem við höfum síðan beitt ríkissjóði til að niðurgreiða; ég nefni sem dæmi húshitunarkostnað. Fari sem horfir við lauslega rýni á þróun útgjalda vegna niðurgreiðslna á rafmagni til ýmissa verkefna þá er niðurgreiðslan í dag eitthvað um 1.700 milljónir, en samkvæmt orkuspá og þeim greiningum sem ég hef fengið frá Orkustofnun gæti sú niðurgreiðsluþörf aukist í um 4 milljarða árið 2025 eða 2026. Það gefur okkur fullt tilefni til að taka dýpri umræðu, t.d. hvernig við losum betur um það, eins og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson nefndi, að varmadæluvæða; losa þannig um rafmagnið og flytja einfaldlega minna rafmagn.