148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:04]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir fram komna tillögu sem gefur þinginu tækifæri til að ræða um stefnu og áhersluatriði sín varðandi uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er tillagan í þremur liðum þar sem fyrst er fjallað um almenn atriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku, í öðru lagi er fjallað um rannsóknir og greiningar og í þriðja lagi viðmið og meginreglur varðandi lagningu raflína.

Ef ég leyfi mér að fjalla um þá í öfugri röð og byrja á síðasta liðnum, lið C, verð ég að viðurkenna að það vekur sérstaka athygli mína hversu þunnur liðurinn um viðmið og meginreglur varðandi lagningu raflína er. Það skýrist væntanlega af því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki komið sér saman um stefnu hvað það varðar. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er reyndar sama marki brennd. Alltaf þegar ríkisstjórnin hefur komið sér saman um texta skín í gegn sundurlyndi og ósamkomulag.

Jákvætt er þó að ekki eigi að taka nema ár í að komast að niðurstöðu og samkomulagi um þetta og taka þingsályktun þessa til endurskoðunar á vorþingi 2019. Vandamálið er bara að þjóðin hefur ekki efni á að bíða eftir að ríkisstjórnarflokkarnir finni málamiðlun. Við þurfum að bregðast við núna.

Hvað varðar lið B verð ég að viðurkenna að við fyrsta lestur punktaði ég hjá mér, og fagna því, að gera ætti óháða greiningu á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að bæta flutningskerfi raforku um land allt, m.a. með tilliti til byggðaþróunar. En svo las ég greinina betur og áttaði mig á að þetta snerist eingöngu um mat á mismunandi tæknilegum lausnum við lagningu raflína, þ.e. jarðstrengja. Jei!

Virðulegur forseti. Er verið að bjóða okkur upp á þetta? Ekki misskilja mig. Það er mjög mikilvægt mál að móta stefnu um hvaða leið eigi að fara hvað varðar jarðstrengi eða loftlínur. Ég óttast bara að þessar endalausu tafir og málamiðlanir milli ríkisstjórnarflokkanna, skýrslur og nefndir, verði til að tefja málin enn frekar og verði þess valdandi að við verðum hreinlega of sein með viðbrögð til að styrkja kerfið. Það er ekki skemmtileg tilhugsun. Vandinn liggur fyrir. Það þarf bara pólitíska ákvörðun. Hana er því miður ekki að finna í þessu skjali.

Að lokum er það fyrsti liðurinn, þ.e. liður A. Almenn atriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þar eru auðvitað fjölmargir mikilvægir punktar. Þó taka flestir þeirra fyrirsögnina kannski full alvarlega, þ.e. eru verulega almennir. Þar má nefna fyrsta áherslupunktinn sem er, með leyfi forseta:

„Flutningskerfi raforku er hluti af grunninnviðum samfélagsins, með sambærilegum hætti og samgöngu- og fjarskiptainnviðir, og ein af mikilvægum forsendum fjölbreyttrar atvinnu- og byggðaþróunar.“

Hver er ekki sammála þessu? Þetta myndi ég telja frekar almenna lýsingu á kerfinu og ekki felst mikil stefnumörkun í þessu. Þetta á jafnvel ekki heima á þessum stað í textanum.

Annan áherslupunktinn mætti hins vegar hafa fyrstan:

„Tryggja ber að flutningskerfið geti á hverjum tíma mætt þörfum raforkunotenda og stuðlað að þeim þjóðhagslegu markmiðum sem fram koma í raforkulögum.“

Ég velti þó fyrir mér hvert viðmiðið sé í dag þegar kerfið er jafn illa statt og raun ber vitni.

Þriðji áherslupunkturinn er einnig ágætur sem yfirmarkmið og kemur reyndar nýr inn frá drögunum sem birt voru í haust. Hann fjallar um að treysta skuli flutningskerfið betur, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.

Þarna myndi ég vilja sjá einhvers konar tímamörk eða undirmarkmið þar sem lögð yrði sérstök áhersla á að leysa vanda þeirra svæða sem búa við skert orkuöryggi og skuli miða að því að um mitt ár 2018 verði búið að ákveða hvaða leið skuli fara þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir til að leysa vandamál þeirra svæða á síðari hluta árs, svona sem dæmi.

Segja má að raunveruleg stefna, eins og ég kom inn á áðan, fari loks að birtast í 4. punkti sem einnig er nýr frá drögunum sem kynnt voru í haust. Reyndar leiðrétti hæstv. ráðherra þann skilning minn áðan að þarna væri yfir höfuð verið að útiloka lagningu raflína yfir hálendið. Auðvitað fagna ég því, eins og ég nefndi áðan, að áhersla verði lögð á Norðurland, Eyjafjörð og Vestfirði í staðinn.

Punktar 5–15 eru einnig nokkuð almennir en 7. punktur er annar tveggja punkta sem koma nýir inn. Þar er lögð áhersla á þau landsvæði sem búa við skert orkuöryggi eins og ég nefndi áðan og er gríðarlega jákvætt; og skulu möguleikar til fjölbreyttrar atvinnusköpunar á landsvísu hafðir að leiðarljósi við uppbygginguna. Hér hefði ég aftur viljað sjá nákvæmari skilaboð eins og ég kom inn á áðan.

Herra forseti. Að mínu áliti er tillagan allt of almenn. Engar tímasetningar eða tímaviðmið eru sett og allt of mikið púður lagt í að spá og spekúlera. Eða kannski er bara verið að koma sér hjá því að taka afstöðu varðandi jarðstrengi í stað þess að fjalla um það sem málið ætti í raun að snúast um, þ.e. að fólk um land allt fái sömu almennu tækifærin, fái rafmagn til að þróa samfélög sín á sama hátt og gerist á suðvesturhorninu. Þökk sé stóriðjuuppbyggingu er það tví- og þrítryggt með rafstrengjum þvers og kruss sem enginn virðist hafa kippt sér upp við að hafi verið lagðir eða gert athugasemdir við. Ég verð að viðurkenna að mér finnst alltaf gæta hálfgerðs tvískinnungs þegar kemur að umræðu um línulagnir utan suðvesturhornsins.

Staðreyndin er sú að við erum nú þegar með buxurnar niðrum okkur þegar kemur að flutningskerfi raforku landsins. Ég er búin að nefna þau ítrekað svæðin sem mest brennur á, Norðurlandið með Kröflulínu, Hólasandslínu, Blöndulínu og svo auðvitað Vestfirðirnir. Staðan í Eyjafirðinum er orðin algerlega óásættanleg eins og oft hefur verið komið inn á í þessum sal. Segjum að einhver hafi áhuga á að byggja upp fyrirtæki á Akureyri sem þyrfti tíu megavött til starfsemi sinnar. Þau megavött er mjög erfitt ef ekki ómögulegt að nálgast vegna þeirrar stöðu sem uppi er í flutningskerfinu í dag. Staðan á Akureyri er raunar sú að nokkur fyrirtæki hafa tekið í notkun olíukatla. Það hlýtur að vera óásættanlegt fyrir Ísland sem stærir sig af endurnýjanlegri orku og grænum markmiðum.

Herra forseti. Þessi svæði geta ekki beðið lengur. Staðreyndin er sú að þessi stefnumörkun er mjög almennt orðuð og spurning hvort leiðsögn hennar hafi sjálfstæða merkingu þegar ekki koma fram skýrari markmið samhliða ákvæðum um einhvers konar tímasett mælanleg markmið. Vantar ekki yfir höfuð skýrari og mælanlegri markmið? Ég nefni að í handbók um opinbera stefnumótun og áætlanagerð, sem gefin var út af Stjórnarráði Íslands árið 2013, kemur fram að stefnuskjal sé tímasett skjal þar sem sett er fram hugmyndafræði, framtíðarsýn, gildi og markmið sem fylgt er eftir með mælikvörðum og fjármagnstengdum aðgerðum.

Verður þingið ekki að orða í það minnsta í stefnunni þann vilja sinn að flýta sem mest styrkingu kerfisins, þá einkum, eins og kemur fram í 7. áhersluatriði A-hluta tillögunnar, á þeim svæðum sem sérstaklega brennur á? Það er löngu kominn tími til að við hysjum upp um okkur buxurnar og gerum bragarbót á. Þar eigum við þingmenn að setja stefnuna. Í inngangi greinargerðar þeirrar er fylgir með þingsályktuninni kemur fram, með leyfi forseta:

„Með þessum hætti getur Alþingi lagt fram ákveðnar meginreglur og viðmið sem taka ber mið af við gerð kerfisáætlunar á hverjum tíma, enda er í frumvarpinu kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli taka tillit til hennar.“

Þá kemur einnig fram að með þessu sé aðkoma Alþingis að mótun kerfisáætlunar tryggð og því ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að þetta sé einmitt tólið sem Alþingi hefur til að koma vilja sínum á framfæri, sem m.a. kom nokkuð skýrt fram í þeirri sérstöku umræðu er hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson óskaði eftir um langtímaorkustefnu fyrr í vikunni.

Þá komu skýrt fram í máli þingmanna áhyggjur af stöðu flutningskerfisins og áherslur á að styrkingu kerfisins yrði flýtt eftir bestu getu, eða eins og hæstv. ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra Þórdís Kolbrún Gylfadóttir sagði sjálf í lokaræðu sinni í umræðunni á mánudaginn, með leyfi forseta:

„Mér finnst áhugavert að hlusta eftir því hversu mikill þungi er á flutningskerfið í þessari umræðu.“

Og síðar:

„Ég held að þetta sýni bara hvað það brennur á þinginu og samfélaginu og sérstaklega landsbyggðinni.“

Af þessum orðum er ekki annað að skilja en að vilji þingsins sé til þess að aukinn kraftur og hraði verði settur í uppbyggingu byggðalínunnar. Því hljótum við að vilja koma þeim vilja fram á skýran hátt inn í þá stefnu sem við ræðum nú.

Herra forseti. Nú er ég í þeirri stöðu að vera runnin út á tíma. En ég bið forseta um að setja mig á mælendaskrá í annað sinn.