148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:20]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir mjög áhugaverða spurningu þar sem hann heldur í rauninni áfram frá því sem við ræddum hér áðan við hæstv. ráðherra.

Ég lít svo á að þetta sé einmitt eina leiðin fyrir þingið til að hafa áhrif á ákvarðanatöku hjá fyrirtækinu sem heitir Landsnet, sem er náttúrlega fyrirtæki í eigu ríkisins. Eins og kemur einmitt fram í fyrsta liðnum, sem ég kallaði almennan hérna áðan, þá er þetta einn af mikilvægustu innviðunum sem við eigum á landinu. Ef þingið nýtir ekki þetta eina tækifæri sem það hefur til að hafa áhrif á forgangsröðun fyrirtækisins þá lít ég svo á að þingið sé ekki að standa sig í vinnunni sinni. Þar af leiðandi tel ég að við eigum að vera skýrari í skilaboðum.

Ég er ekki að tala um að við eigum að fara að skipta okkur af einhverjum smáatriðum, að við eigum að fara að skipta okkur af því hvernig strengirnir liggja eða öðru slíku, það er gert í kerfisáætlun, og hvaða leiðir eru farnar, heldur að gefa þessar stóru breiðu línur um að leysa eigi þau vandamál, að það eigi að finna leiðir til þess að kerfið virki. Við vitum alveg og það hefur ítrekað komið fram í þessum ræðustól að kerfið virkar ekki nógu vel. Við erum að tapa fullt af orku í kerfinu eins og það er. Við þurfum að gera betur.