148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:30]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Þetta mál er lagt hér fram í fyrsta skipti. Það er ánægjulegt að við skulum vera komin með svona góðan leiðarvísi inn í framtíðina sem við ætlum vonandi að ná góðu samkomulagi um. Ég kom inn á þing árið 2013 og minnir mig að þetta mál hafi verið eitt af fyrstu málunum sem við ræddum í atvinnuveganefnd. Nú er afkvæmið komið fram og mér líst ljómandi vel á. Auðvitað eru skiptar skoðanir um einhverja þætti þess, en í stóru línunum er komið mjög mikið til móts við þau sjónarmið sem áttu svolítið erfitt uppdráttar þegar ég kom fyrst að málunum þegar við ræddum jarðstrengi sem voru og eru mikið dýrari. En með lagabreytingum hefur Landsnet meiri möguleika til að nýta jarðstrengi, sem þeim var ekki kleift áður. Er það vel.

Eins og fram kemur í þingsályktuninni er lögð sérstök áhersla á rannsóknir vegna jarðstrengja til að auka hlutfall þeirra í flutningskerfi raforku í jörð. Ég verð að segja eins og er að mér hugnast það mjög vel.

Í stjórnarsáttmálanum segir að flutnings- og dreifikerfi raforku verði að mæta kröfu atvinnulífs og almennings um öruggari afhendingu. Við erum að tala um æðakerfi atvinnu- og mannlífs í landinu. Það skiptir afhendingaröryggið gríðarlega miklu máli.

Flutningskerfið er að mörgu leyti eins og eyjar, þar eru sterkir innviðir á ákveðnum svæðum, eins og á Suður- og Vesturlandi þar sem flutningskerfið er öflugt, en svo eru tengingarnar við Norður- og Norðausturland lakari. Það er auðvitað lykilatriði að fara í að byggja upp það kerfi til að tryggja afhendingaröryggi og eins til að auka flutninginn.

Það er alveg ljóst að víða á landinu er nánast skortur á rafmagni. Við höfum verið minnt á það í þessum sal að t.d. á Akureyri er verið að byggja díselstöðvar vegna þess að þangað berst ekki nóg orka. Það er auðvitað í hróplegri andstöðu við það sem við höfum verið að tala um í loftslagsmálum og bara í þessu landi þar sem við höfum aðgang að endurnýjanlegri orku, að við getum svo ekki flutt hana til þeirra sem á henni þurfa að halda. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir svæðin fyrir norðan og austan, ekki síst atvinnulífsins vegna, að tryggja flutning orkunnar til að eyða út díselrafstöðvum, til að gera fiskvinnslufyrirtæki, fiskimjölsverksmiðjur rafvæddar. Þar er gríðarlegri olíu eytt á hverri vertíð. Við leggjum gjörva hönd á plóg um að bæta úr slíku.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á ástandið á Suðurnesjum. Þar er flutningskerfið fullnýtt. Línan suður eftir er fulllestuð. Þar búa u.þ.b. 24.000 manns. Þar er alþjóðaflugvöllur þjóðarinnar. Það þurfti ekki nema ein járnplata að fjúka í línuna til þess að það yrði rafmagnslaust á Suðurnesjum svo klukkutímum skipti. Það segir sig sjálft að það ástand er algjörlega óboðlegt í nútímasamfélagi sem kallar á öryggi í atvinnulífi, öryggi á sjúkrahúsum, öryggi í umferðinni. Þetta kemur alls staðar við og er gríðarlega stórt mál.

Það er líka gríðarlega stórt mál hvað varðar línulagnir og jarðstrengi. Auðvitað mun það alltaf verða umdeilt í okkar fallega landi hvar við eigum að koma línunum fyrir. Ég verð að segja að frá því ég kom inn á þing 2013, eins og ég er búinn að segja nokkrum sinnum í þessari ræðu, finnst mér umræðan hafa þroskast mjög mikið. Mér finnst allflestir þingmenn sem taka þátt í þessari umræðu orðnir mun rólegri yfir þeim leiðum sem eru í boði, vegna þess að við ætlum okkur að auka hlut jarðstrengja.

Við áttum okkur kannski ekki á því en í heimabæjum okkar flestra úði og grúði af loftlínum um allar götur úti um allt fyrir aðeins nokkrum árum. Þær eru náttúrlega löngu horfnar. Það tekur eiginlega enginn eftir því lengur að það vantar símalínurnar og rafmagnslínurnar sem voru eins og net um bæina, net um sveitirnar. Það er sem betur fer að hverfa smátt og smátt. Auðvitað er best að sem mest af því fari í jörð, en það fylgja því líka ákveðnir gallar. Mjög flutningsstórir strengir í jörð taka mikið pláss, valda miklu jarðraski, þannig að það þarf alltaf að meta.

Við munum alltaf takast á um það á ákveðnum svæðum hvaða leiðir er best að fara. Sannarlega er það sums staðar þannig að loftlínur eru að mestu afturkræf framkvæmd, en kannski eru jarðstengirnir það ekki að öllu leyti alls staðar. Við munum alltaf þurfa að vega þetta og meta. Til þess þurfum við góð stjórntæki. Þess vegna er sú svæðisskipulagstillaga sem þessi þingsályktunartillaga er í raun góður leiðarvísir fyrir kerfisáætlunina til tíu ára og þá framkvæmdaáætlun sem fylgir henni til þriggja ára.

Það sem mér finnst mjög gott í tillögunni og hef komið inn á eru þær auknu rannsóknir sem ríkisstjórnin leggur til að verði farið í vegna hagkvæmni jarðstrengja. Við erum nútímasamfélag sem krefst þess að við búum við öryggi og að það öryggi fáist með því að minnka sem mest ásýnd framkvæmdanna, hvar sem er og hvenær sem er. Það er von mín að þingsályktunartillagan, sem hér er lögð fram í fyrsta skipti, verði okkur leiðarljós inn í framtíðina.