148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég er aðeins hugsi yfir samanburði þingmannsins á þeim framlengingarsnúrum sem lagðar eru í jörðu í þéttbýlinu og þessum gríðarstóru 100, 200 kílóvatta strengjum sem þarf að leggja um hálendið eða einhvers staðar annars staðar þar sem þarf svo og svo mikið helgunarsvæði til að hægt sé að komast að þeim og gera við þá og þess háttar. Þeir bila eins og annað.

Ég sé í sjálfu sér ekkert í þessu plaggi sem minnkar þessar áhyggjur af raforkuöryggi segjum á Suðurnesjum á næstu mánuðum eða jafnvel á þessu ári og langar því að spyrja hv. þingmann: Er það rangt hjá mér? Sér þingmaðurinn eitthvað í þessari áætlun sem slær á áhyggjur þingmannsins af raforkuöryggi á Suðurnesjum eða Suðurlandi?