148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:43]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar umræður. Ég held að í þessari þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku sé eðlilega verið að setja stóru stefnuna fram, þarna er auðvitað ekki verið að ræða um einstaka línur eða línulagnir. Við erum kannski að setja þann ramma sem við viljum vinna eftir. Ég held að ég og hv. þingmaður séum svolítið á svipuðum slóðum þegar við erum að tala um strengi eða raflínur. Ég held að auðvitað hljóti kostnaðurinn að vera einn af þeim þáttum sem ræddir verða þegar tekin er ákvörðun um jarðstreng eða loftlínu. Það hlýtur að vera einn þátturinn í því þegar ákvörðun er tekin.

Ég get líka alveg verið sammála því að í ákveðnum tilfellum þá þurfi sá aukni kostnaður sem fylgir jarðstrengjum ekki endilega að útiloka þá leið vegna þess að í sérstaklega viðkvæmri náttúru getur það verið leiðin sem allir geta sætt sig við. Ég held að við séum svolítið á sömu blaðsíðu þar. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá erum við Íslendingar að upplagi náttúruunnendur. Við eigum fallegt land og þurfum að ganga vel um það. Við þurfum að reyna að gera einhvern samning við náttúruna um það hvernig við getum nýtt landið, nýtt orkuna, og hvernig við ætlum að koma henni til fólksins í landinu. Ég held að það sé það sem við þurfum að vera sammála um og gera í sátt og samlyndi við náttúruna, það er gríðarlega mikið atriði. Það er ekkert einfalt mál. Hérna er talað um að ekki verði lagðar línulagnir yfir hálendið. Við þurfum auðvitað að skoða það líka.