148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og tek undir með honum um mikilvægi þess að við bregðumst við á einhvern hátt. Það er náttúrulega ótrúlegt til þess að hugsa að árið 2017 bárust fréttir af því að verið væri að reisa dísilrafstöðvar á Akureyri og að við, land sem getur framleitt hreina orku, séum að brenna dísli og menga með því.

Ég er þess fullviss að hér sé um eitt stærsta umhverfismálið að ræða þegar kemur að því að trygga öryggi raforku um land allt og tek undir sjónarmið um það hvort við þurfum að velta því fyrir okkur á næstu misserum að kannski ættu einhverjar grunnlagnir heima í landsskipulagi, kannski ættu líka ákveðnir flugvellir, mögulega hafnir eða fleiri slíkir hlutir, heima í landsskipulagi.

Hv. þingmaður kom ágætlega inn á kærumálin og við höfum örugglega ekki að einhverju leyti verið nægilega fagleg þegar kemur að því að gera umhverfismat og fara yfir það hver besta leiðin er. Það er líka alveg ótrúlegt til þess að hugsa að kannski sé búið að ná samþykki um það í svæðisskipulagi viðkomandi svæðis að leggja línu, það liggi jafnvel fyrir í aðalskipulagi allra svæðanna, og á báðum stigum er hægt að kæra úrskurðina. Svo kemur að því að leggja sjálfa línuna og þá þarf að veita framkvæmdaleyfi og þá kemur aftur upp kæruferli. Ég vil beina því til ráðherra og þingheims að við tökum þá umræðu hvort þetta sé eðlilegt, hvort þetta sé gott fyrirkomulag og hvað það kosti okkur í samfélagslegum kostnaði.