148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:02]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef oft í þessu samhengi í öðrum málum, hvort sem það eru flugvallarmál eða aðrir þættir, horft til Svíþjóðar og þess hvernig Svíar hafa verið að skoða sín mál varðandi „riksintresse“. Svíar taka raunverulega undir „riksintresse“, hvort það heitir þjóðaröryggisstefna á íslensku, þar sem þeir setja helstu flugvelli sína, brýr, háspennulínur og mikilvæg grunninnviði undir þetta hugtak.

Ég veit ekki hvort þetta ætti þá að tengjast inn í landsskipulagsstefnu, að við skilgreindum helstu öryggishagsmuni okkar í grunninnviðum landsins, hvað það er sem við viljum passa helst upp á og hvað við þurfum að tryggja. Ég hef fylgst svolítið með þessu hugtaki og lesið um það og skilgreiningarnar eru víða á þennan hátt í nágrannalöndunum. Þetta er stjórnsýsla sem er svolítið þroskaðri en okkar og hefur þróast yfir lengri tíma og menn hafa jafnvel tekið upp fyrir einhverjum áratugum í löndunum. Allt snýst þetta um að tryggja öryggishagsmuni íbúa viðkomandi lands þannig að einstök sveitarfélög geta truflað ferlið á einhvern hátt. Mér fyndist áhugavert að þetta yrði skoðað betur í því samhengi.