148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þetta málefni um uppbyggingu flutningskerfisins er eitt af meginverkefnum dagsins og raunar næstu ára. Ég lít þessa þingsályktunartillögu mjög jákvæðum augum. Ég ætla líka að minna á og það hefur reyndar komið fram að hún kallast á við bæði kerfisáætlun Landsnets og orkustefnuna. Við megum ekki gleyma því, þegar við erum jafnvel að gagnrýna að hér sé ekki nógu nákvæmlega farið í hlutina, að það er stuðningur af því sem ég hef þegar nefnt.

15 atriði eru hér til umræðu. Ég ætla að fjalla um nokkur þeirra. Í lið 3 er rætt um afhendingaröryggi. Afhendingaröryggi í landinu snýr bæði að lágspennta kerfinu sem er stundum kallað dreifikerfi og háspennta kerfinu sem við köllum flutningskerfi. Það er mjög brýnt að þessu sé ekki ruglað saman. En hitt er svo annað mál að öryggisþátturinn er í hvorugu kerfinu nægur. Þegar kemur að háspennta flutningskerfinu þá er meginorsökin fyrir of litlu öryggi langvarandi skortur á því að orkuframleiðslusvæði landsins hafa ekki verið tengd saman með línum með nægilegri flutningsgetu. Þetta er löng saga. Það er búið að tíunda hana hér að hluta til og auðvitað kominn tími til að bregðast við.

Liður 4 fjallar annars vegar um jarðstrengi og svo línulagnir, eins og það er orðað, yfir hálendið. Það er talað um nýtingu jarðstrengja, að það skuli gerast með hagkvæmum hætti. Þá megum við ekki gleyma því að tæknilegir þættir koma líka við sögu. Það er í sjálfu sér tiltölulega flókin flóra og helgast m.a. af því að þegar um er að ræða blönduð flutningskerfi þá er ekki hægt að hafa jarðstrengi og loftlínur í belg og biðu, það eru ákveðin kerfislæg vandamál sem þarf að yfirvinna. Það er mjög mikilvægt að við tökum inn í þetta líka þegar við hugsum um hagkvæmni að það sé ekki einungis fjárhagsleg hagkvæmni, þetta er líka tæknileg hagkvæmni.

Þessi setning, „ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið“, með leyfi forseta, hún hefur kannski, ég skal ekki segja, misfarist í samningu, en ég hef fulla vissu fyrir því að þegar rætt er um línulagnir þá er verið að tala um loftlínulagnir. Þessi hugtakaruglingur er mjög algengur. Ef maður minnist á orðið raflína eða lína við sumt fólk þá er það loftlínan, hitt heitir jarðstrengur. En í fræðunum, ef við orðum það þannig, þá eru raflínur yfirhugtakið og þær skiptast annars vegar í loftlínur og hins vegar jarðstrengi. Hér er sem sagt átt við loftlínur og hálendið með greini er miðhálendið. Það er enginn að fara að leggja háspennta raflínu yfir Tröllaskaga eða eitthvað slíkt. Segjum að það þurfi háspennta línu yfir hálendi á Vestfjörðum og þá er það engin önnur leið að fara en yfir hálendið ef á að tengja þarna saman einhverjar virkjanir sem í boði eru án þess að ég taki afstöðu til þeirra.

Ef við færum okkur niður í lið 6 þá er þar talað um valkostagreiningar. Aftur kemur kerfisáætlun inn vegna þess að kerfisáætlun er með nokkurs konar forskrift um það hvað þurfi að gera, en síðan þegar kemur að framkvæmdinni þá þarf auðvitað að velja valkosti. Það er mjög mikilvægt að þessar valkostagreiningar fari fram og verði lagðar til grundvallar vegna þess að þetta er ekki eingöngu spursmál um kostnað heldur líka línuleiðina sem er náttúrlega stórt mál þegar kemur að umhverfisáhrifum viðkomandi línu.

Í lið 8 er rætt um orkuskipti. Það er enn ein stoðin undir þessa flutningsáætlun. Orkuskiptin eru mjög fjölþætt. Hér er rætt m.a. um rafbíla, notkun raforku í höfnum og raforku til fiskimjölsbræðslna. Nú er það svo varðandi bíla, bara til að minna á það, að þá erum við ekki að tala eingöngu um rafbíla. Ég hef minnst á það áður úr þessum ræðustól að mér finnast þingmenn og aðrir einblína um of á þá vegna þess að það eru aðrir orkugjafar, hvort það er metan eða alkóhól eða lífdísill eða vetni, sem koma til sögu eftir því hvers konar tæki við erum að tala um. Allt þetta krefst meira eða minna raforku í framleiðslu. Það er því um miklu meira að ræða en bara rafmagn í rafbíla.

Hvað raforku í höfnum snertir þá er það auðvitað mjög brýnt úrlausnarefni. Ég hef heyrt töluna 6–7 milljarða í heildina og 30 megavött. Þegar kemur að raforku til fiskimjölsverksmiðja þá er það einhvers staðar á milli 100 og 120 megavött í heildina. Það hefur komið fram mjög áköf gagnrýni á orkuverð sem þær bræðslur sem hafa reynt þetta hafa þurft að sæta.

Við komum að 9. lið. Þar er rætt um að jarðstrengskaflar séu nýttir á þeim svæðum þar sem jarðstrengur hefur í för með sér mestan ávinning umfram loftlínu. Ef þingmenn hafa hlustað á orð Landsnets þá hefur það komið mjög skýrt fram að 5–8 kílómetra jarðstrengsbútar í Skagafirði og Eyjafirði sé fullkomlega eðlilegt og ætti að tryggja það að styrking línu fyrir norðan að Blöndu ætti að vera tiltölulega einboðið verkefni.

Varðandi orkuskiptin þá er líka rætt um haftengda starfsemi. Þar koma auðvitað skip við sögu þannig að enn eykst orkuþörfin og þarf að taka tillit til þess líka.

Í lið 12 er rætt um að draga úr sjónrænum áhrifum með þróun nýrra flutningsmannvirkja. Þá er ekki eingöngu verið að vísa til þess að það þurfi að bæta sjónræn áhrif, ef við getum orðað það þannig, loftlínur sem eru lagðar nýjar, heldur er komið að því mjög víða að viðhaldsþörf á eldri háspennulínum er orðin mjög mikil. Í staðinn fyrir stóru grindamöstrin sem við þekkjum öll er unnt að reisa allt annars konar möstur sem er búið að þróa, það er búið að leggja töluverða vinnu í þróun þessara flutningsmannvirkja. Það eru meira eða minna til línur eða línumöstur sem falla mjög vel að þessari hugmyndafræði.

„Jarðstrengi skal svo sem kostur er leggja meðfram vegum“ segir hér, með leyfi forseta. Það er atriði sem ég held að við þurfum að hugsa mjög vel út í, ekki bara að þeir skuli vera meðfram vegum, heldur hvað við er átt með háspenntum jarðstrengjum og að menn geri sér grein fyrir helgunarsvæðinu sem getur verið 7–8 metrar. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að skurðurinn er stór, það eru þrír leiðarar, hann er tiltölulega djúpur. Það þarf að fylla hann af sandi, sérstökum sandi sem er hitaleiðandi. Hann þarf að keyra langan veg. Hann gæti jafnvel verið innfluttur. Vegurinn sem liggur meðfram viðkomandi háspennustreng, hvort hann er nú nýr eða nýlagður, þarf að þola þann burð. Síðan fer uppgröfturinn úr skurðinum til hliðar við skurðinn. Það er ekki hægt að nota hann til þess að fylla í skurðinn nema að litlu leyti aftur. Þannig að helgunarsvæðið eins og þið sjáið er orðið mjög stórt. Ef það kemur svo að mismunandi línuleiðum, annars vegar lausum jarðlögum og svo hins vegar bergi, þá getið þið ímyndað ykkur muninn. Það er tiltölulega auðvelt að leggja jarðstreng segjum yfir hluta miðhálendisins, miðhlutann, þar sem eru eingöngu laus jarðlög, en það er stórmál að leggja jarðstreng tuga kílómetra leið í föstu bergi.

Ég vil nefna sem dæmi að norska þingið samþykkti einfaldlega að það væru eingöngu notaðar loftlínur í háspennta flutningskerfinu í Noregi. Þeir sem hafa komið til Noregs geta vel ímyndað sér af hverju, bæði út af því að það er gríðarlega mikið af grjóti, berum berggrunni í Noreg og svo eru firðirnir og dalirnir. Þannig að það er mjög eðlileg ráðstöfun að mörgu leyti. Jarðstrengir eru auðvitað notir á einhverjum takmörkuðum svæðum, en í stórum dráttum þá er málið þannig. Þegar við athugum þessi mál þurfum við að hugsa vel fyrir þessu og raskinu sem fylgir.

Ég held að sú gagnrýni að þetta sé almenn þingsályktunartillaga, of almenn, eigi ekki við rök að styðjast nema að litlu leyti vegna þess að hún er sett til langs tíma. Við erum að hugsa um flutningskerfi til 30, 40 ára, 50 ára. (Forseti hringir.) Eitt ár í góðan undirbúning er ekki frágangssök.

Nú verður málinu vísað til hv. nefndar. Ég vona að hún beri gæfu til að vinna þetta vel sem og að (Forseti hringir.) við höldum áfram að ræða áfram á þessum nótum eins og við höfum gert.