148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðuna. Það er öllum ljóst sem hér eru að hann talar af mikilli og yfirgripsmikilli þekkingu. Ég verð líka að bæta við að þekking og skilningur fara ekki alltaf saman, en það á sannarlega við í tilfelli hv. þingmanns.

Þegar við ræðum þessi mál og flutningskerfi raforku getum við nálgast það frá ýmsum sjónarhólum. Við getum talað um það frá sjónarmiði efnahagsmála almennt, byggðamála, og síðan náttúruverndar eða náttúruverndarsjónarmiða. Það er stundum sem þetta rekst allt saman á og við þurfum að reyna að samþætta þau sjónarmið, standa vörð um íslenska náttúru, sem ég held fram að séu einhver mestu efnahagslegu verðmæti sem við eigum. Þess vegna þurfum við að ganga varlega um og þar held ég að við hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson eigum góða samleið.

Það er þó þannig að stundum þarf að fórna einhverju til að fá eitthvað annað. Þegar kemur að t.d. orkuskiptum, sem ég held að við séum öll sammála um, kann að vera að við þurfum að fórna öðrum verðmætum, m.a. náttúruverðmætum þegar kemur að náttúrunni. Ég velti fyrir mér hvernig við náum jafnvægi og hvernig við metum það.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann. Það segir í stjórnarsáttmála og bent er á að stjórnsýslumeðferð ákvarðana er tengist línulögnum hefur tekið verulega langan tíma vegna ýmissa þátta. Ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) hvort hann hafi séð fyrir sér einhverjar þær leiðir, einfaldar, til að við getum náð saman í því að einfalda stjórnsýsluna alla í því sambandi.