148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:25]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakkir til hv. þingmanns. Um Noreg. Norðmenn framleiða 28–30 þús. megavött af rafafli miðað við okkar 2.700 megavött. Þeirra land er náttúrlega langt og mjótt að hluta til eins og menn vita og landslagið eins og það er og berggrunnurinn eins og hann er. Þetta er mikið hálendi og grunnur jarðvegur. Þessi meginlína er því einfaldlega niðurstaða bæði greiningar og umræðna fyrir dálítið löngu síðan í norska Stórþinginu. Þetta er niðurstaðan. Ef þið farið til Hollands, Holland er eiginlega bara mold, laus jarðvegur, þar er þessu þveröfugt farið. Þar hafa stjórnvöld einfaldlega tekið þá línu að meginflutningskerfið skuli vera í jörðu. Þetta eru bara ólíkar aðstæður. Við erum þarna einhvers staðar mitt á milli.

Hvað vindmyllugarðana snertir þá vantar lögin. Það er talað um það í stjórnarsáttmála að það skuli setja vindorkugörðum lög. Það eru mörg verkefni sem eru í hugum manna í pípunum, jafnvel búið að ganga nokkuð langt með þau. Það eru bara þessi tvö verkefni sem hafa raunverulega fengið einhverja reynslu, þ.e. við Búrfell og svo aftur í Þykkvabænum. Það þarf að skoða þetta allt.

Það sem er mjög mikilvægt og það kom fram í útvarpsviðtali fyrir ekki svo löngu síðan að það eru til menn sem líta svo á að þetta eigi að vera utan rammaáætlunar. Það megi sem sagt byggja stórt vindorkuverk sem er tugir megavatta, en það falli ekki undir lög um rammaáætlun, sem ég tel alrangt ef svo væri farið.

Það er að mörgu að hyggja í þessu. Við erum rétt að byrja. Það bíður þingsins einfaldlega stórt verkefni að ná utan um þennan þátt af orkuvinnslu á Íslandi ekki síður en þáttar sem er mjög ónotaður og ég nefndi hér í ræðu einhvern tímann, en það eru sjávarfallavirkjanir. Þær gætu gefið okkur töluvert (Forseti hringir.) og væru að sumu leyti miklu ósýnilegri en vindmyllur