148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:45]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka þingmanninum fyrir seinna andsvarið. Það er akkúrat það sem ég lagði áherslu á, að það væri mikilvægt að taka stöðuna. Hver er hún raunverulega núna, tæknilega séð? Það er mikilvægt að þetta gangi mjög hratt fyrir sig og að við hefjumst handa.

Síðan talaði ég um að við þyrftum að hafa stöðuga vinnu í gangi þannig að við lentum ekki aftur í þeirri stöðu að fara að bíða eftir því að einhver ný tækni komi á markaðinn og stoppa við að taka hana út, heldur að við fylgdumst stöðugt með því hver væri besta fáanlega tæknin á hverjum tíma. Þær upplýsingar eiga að liggja fyrir fyrir fram, reglulega, þegar stefna stjórnvalda er lögð fyrir þingið, við eigum ekki að kalla eftir þeim árið eftir.

Ég hef í sjálfu sér enga þekkingu á tækninni og ætla ekki að fara út í hana. Að sjálfsögðu getum við ekki beðið. Árið 1972, þegar rafmagnið var tengt heim til mín, var það allt í loftlínu. Þeir strengir eru allir komnir í jörð núna og eru miklu betri, bæði fyrir þá sem þurfa að heyja tún eða taka á móti rafmagninu. Á þessu svæði var annars viðbúið í ísingaveðri að allt rafmagn dytti út á mjög stóru svæði. Enn þá gerist þetta í sveitum þar sem línur eru ekki komnar í jörð, eins og á Héraði þar sem fólk lendir ítrekað í því að rafmagnið fer. En auðvitað fer það allt eftir því hver spennan er á strengjunum hvaða tækni hentar.