148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög gott andsvar og góð spurning. Akkúrat á þeim tíma þegar málið var til umræðu í ríkisstjórnarmeirihlutanum voru vitanlega efasemdir um hvort þetta gæti staðið með þessum hætti. Ég man að við ræddum það í þingflokknum. Það var hins vegar alveg ljóst að skilaboð okkar til ráðherrans á þeim tíma voru að þetta gæti ekki lent á notendunum. Ég held að allir hafi verið sammála um það. En ég viðurkenni fúslega að ekki var komin nein lausn upp á borðið.

Sjálfur get ég alveg ímyndað mér að ef þetta er niðurstaðan, að menn ætli sér að fara þessa leið, sé mögulegt að búa til einhvers konar batterí sem mætir þessu. Horfa má til þess að hér ætla menn að setja á fót einhvern digran auðlindasjóð, ef ég man rétt. Það var nú alltaf sagt þegar menn voru með glýju í augum að fara að flytja út rafmagn að það yrði svo mikill gróði af því, að menn myndu sjá til þess að raforkuverð hækkaði ekki á fólk og fyrirtæki ef sú leið væri farin. Ég vona að öll sú vitleysa sé út úr myndinni. Lausnin var ekki fundin þá en umræðan var nákvæmlega sú sama. Ég held að skilaboðin sem hæstv. ráðherra fékk á þeim tíma hafi verið að ekki mætti fara í þetta nema það væri algerlega klárt að það lenti ekki á notendum.

Ég er eins og allir aðrir fús til að ræða einhverjar lausnir ef þær eru til á þessu máli. En yfirleitt á þetta við um veikt atvinnulíf, veik byggðarlög, veik samfélög víða um land sem eru að reyna að byggja sig upp atvinnulega og byggðarlega séð. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þessir aðilar beri umframkostnaðinn.