148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[17:00]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög gott svari við andsvari. Sérstaklega var ég ánægður með það orðaval hv. þingmanns að tala um mögulegt utanumhald sem mætti þessu „batterí“. Mér finnst það mjög við hæfi í þessari raforkuumræðu hér og kom nú aðallega upp til að hrósa hv. þingmanni fyrir það.

En mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða. Ef aukinn kostnaður, verði hann fyrir hendi, lendir á notendum er það á svæðum sem eru veikust fyrir, eins og hv. þingmaður bendir á. En nú horfum við t.d. á fyrirtækið Landsnet sem er í eigu dreifingaraðila sem allir eru í opinberri eigu. Er það eitthvað sem mætti skoða, að aukinn kostnaður lenti einfaldlega á því fyrirtæki sem er í opinberri eigu? Ég sé á svip hv. þingmanns að honum hugnast sú hugmynd ekki. Þá þyrfti ríkissjóður væntanlega að setja einhverja fjármuni þar inn. Horfum við e.t.v. á sérstakan sjóð? Að þetta færi í gegnum Byggðastofnun? Ég er mjög þakklátur hv. þingmanni fyrir að hafa komið svona vel inn á þetta atriði því að það þurfum við í atvinnuveganefndinni virkilega að taka inn í umræðuna.

Við megum ekki lenda í þeirri stöðu að við tímum ekki að fara umhverfisvænni leiðina af því að það endi sem kostnaður á neytendum, og þá er ég að tala um innan þess ramma sem hér er gefinn. Þá eigum við að finna leið til að koma í veg fyrir að kostnaðurinn lendi á neytendum. Ég hef pínulitlar áhyggjur af því að ef ekkert slíkt er gert, ef umhverfisvænna er að fara í jarðstrengi, hafi það áhrif á hvaða leið verður valin.