148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að ég hafi nefnt eitthvert batterí eða eitthvað til að sjá um þetta er ég nú ekki sérstaklega hrifinn af því þegar fjölga þarf stofnunum og batteríum hjá ríkinu. Ég held að væri nú nær að fækka þeim. En það getur vel verið, að því gefnu að þessi leið verði farin, að hægt sé finna þessu stað hjá einhverju apparati sem til er í dag.

Ég held að það sé mjög erfitt að leggja þetta á herðar Landsnets, alla vega eins og lögin og reglurnar eru um það fyrirtæki í dag. Það held ég að gangi einfaldlega ekki upp.

Ég er nú reyndar þeirrar skoðunar að ef ekki er um eitthvert sérstaklega verðmætt náttúrufyrirbrigði að ræða eigi að horfa á kostnaðinn gagnvart notendunum. Það finnst mér. En að því sögðu finnst mér líka að við þurfum að horfa til þeirra sem eiga land, einkalönd og annað, sem fara þarf í gegnum. Það þarf að hafa betra og aukið samráð við þá. Það er ekki sjálfgefið að menn fari bara með línur eða jarðstreng í gegnum túnið. Það getur verið meira rask af jarðstreng en loftlínu.

Allt er þetta spurning um jafnvægi. Ég hef bara áhyggjur af því að þessi þingsályktunartillaga sé ekki — það er ljótt að segja að hún sé ekki nægilega vel úthugsuð, en ég held að hún þurfi að þroskast betur, svo ég orði það svo.